Strandveiðarnar hafa farið vel af stað

09.05.2017 - 15:28
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Nú er komið á aðra viku síðan strandveiðitímabilið hófst og strandveiðar því komnar á fullan skrið. Eigendur 377 báta hafa virkjað strandveiðileyfin og landanir eru orðnar á annað þúsund talsins.

Leyfilegt er að veiða fjóra daga vikunnar og að lokinn fyrstu viku var 671 tonn komið á land. Meðaltalsveiði á bát eru tæp 1,8 tonn. Heimilt er að veiða sem svarar 650 kílóum, í þorskígildum talið, á dag

Á vef Landssambands smábátaeigenda, smabatar.is, er haft eftir Andra Viðari Víglundssyni, á Margréti ÓF frá Ólafsfirði, að þorskur sé kominn á veiðislóð bátanna. Mun betri veiði sé á fyrstu dögum strandveiðanna nú en undanfarin ár og flestir séu í mokveiði.

„Sá sem varð fyrstur í land síðastliðinn fimmtudag sá fuglager útaf Múlanum, drap á og lét reka inn í gerið. Hann náði aldrei að renna nema þremur rúllum af fjórum áður en skammtinum var náð,“ er haft eftir Andra. Aðrir sem voru á veiðum þennan dag létu vel af sér og ekki óalgengt að menn væru komnir í land upp úr hádegi.

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV