Íslenska karlalandsliðið í körfubolta skipað leikmönnum 18 ára og yngri varð í dag Norðurlandameistari eftir sigur á Finnum í úrslitaleik, 101-72. Kvennalandsliðið í sama aldurshópi hafnaði í þriðja sæti á mótinu.

Leikur Íslands og Finnlands um gullverðlaun í dag var jafn framan af en Finnar náðu svo 11 stiga forskoti, 21-10. Íslensku piltarnir skoruðu þá 18 stig í röð og litu ekki til baka eftir það. Þórir Þorbjarnarson úr KR fór á kostum og skoraði 33 stig. Hann var í leikslok valinn í úrvalslið mótsins. Íslenska piltalandsliðið undir 18 ára vann Norðurlandamótið síðast árið 2009.

Stelpurnar byrjuðu mótið vel og unnu tvo fyrstu leikina en náðu ekki að sýna sitt rétta andlit í þeim tveimur næstu. Þær áttu þó góðan leik gegn Finnum í dag þrátt fyrir tap 77-71. Finnska liðið vann alla sína leiki á mótinu og stóð uppi sem norðurlandameistari. Sylvía Rún Hálfdánardóttir var valin í úrvalslið mótsins í kvennaflokki. 

Undir 16 ára landslið drengja hafnaði í 5. sæti og stúlkna 4. sæti.