Kljúfa gæti þurft tvö útvistarsvæði með strætóakbrautum til að stytta ferðatíma á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt tillögum í nýrri skýrslu. Þá gæti Hverfisgötu í Reykjavík og fleiri götum verið lokað fyrir annarri bílaumferð en strætó.

 

Fimmtán þúsund manns nota strætó reglulega og eru það nærri þrefalt fleiri en árið 2011. Vegagerðir og samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa gert samkomulag um að tíu ára tilraunaverkefni um að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Nýverið var lokið við þriðju skýrsluna um mat á árangri verkefnisins.

„Okkur líst bara vel á margt sem kemur þar fram,“ segir Ragnheiður Einarsdóttir, sérfræðingur í samgöngumálum hjá Strætó bs.

Ýmsar tillögur til úrbóta eru settar fram í skýrslunni sem Mannvit vann. Ekki er mælt með því að hækka fargjöld en heldur ekki að það verði ókeypis að ferðast með strætó. 

Eitt af því sem hindrar fólk í að taka strætó er hversu langan tíma það getur tekið að komast milli hverfa. Þess vegna er til skoðunar að leggja akveg fyrir strætó í gegnum Rjúpnahæð, sem er útivistarsvæði milli Kópavogs og Breiðholts. Þá er lagt til að lagður verði akvegur þvert í gegnum útivistarsvæðið í Fossvogsdal. 

„Já, ef það er niðurstaðan að það þurfi að gera það til þess að bæta leiðarkerfið og stytta ferðatímann, þá af okkar hálfu þá kæmi það til greina,“ segir Ragnheiður.

Þá er tillaga um að um sumar götur verði ekki leyfð nein bílaumferð önnur en akstur strætisvagna og Hverfisgata nefnd sem dæmi.

Hvernig líst ykkur á þessar hugmyndir að sumar götur verði bara fyrir strætó?

„Í sumum tilvikum gæti það þurft að gerast,“ segir Ragnheiður.

Þá er í skýrslunni fjallað um að unnt verði að bæta leiðarkerfið þegar ný 270 metra brú verður reist yfir Fossvog eins og stendur til að gera. Brúin á eingöngu á að vera fyrir almenningssamgöngur og gangandi og hjólandi vegfarendur. 

„Það eru miklar umferðartafir á annatíma, sérstaklega seinni partinn, og þá er strætó fastur í umferðinni eins og aðrir bílar,“ segir Ragnheiður.

Þess vegna er til skoðunar að fjölga forgangsakreinum. 

Þyrfti þá að fara í vegaframkvæmdir til þess að bæta við einni akrein?

„Já, t.d. myndi ég nefna Sæbrautina og Nauthólsveg. Það er mikið vandamál í dag hvað strætó er mikið fastur þar,“ segir Ragnheiður.

Þá er einnig lagt til að strætó gangi oftar. 

„Það er verið að skoða t.d. að auka tíðni á leiðum 1, 3 og 6 í sjö komma fimm mínútna tíðni á annatíma,“ segir Ragnheiður. Stefnt sé að því að þær breytingar taki gildi eftir ár.

Það er svo stjórn strætó, sem skipuð er borgar- og bæjarfulltrúum á höfuðborgarsvæðinu, sem ákveður hvaða tillögur verða að veruleika.