Stórfelld fíkniefnasala fer fram í íslenskum söluhópum á Facebook, samkvæmt niðurstöðum samnorrænnar rannsóknar á fíkniefnasölu á netinu. Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði, tók þátt í gerð rannsóknarinnar. Hún stóð yfir frá haustinu 2017 og fram á vor 2018 og fundust um 30 lokaðir söluhópar á Facebook hér á landi.

Tæknibreytingar á fíkniefnamarkaðnum er mjög hraðar, sagði Helgi í útvarpsþættinum Samfélaginu á Rás 1 í dag. Þar sagði hann að í dag hafi orðið töluverðar breytingar á markaðnum og Facebook ekki eins ráðandi og þegar rannsóknin var gerð. 

Rætt var við bæði seljendur og neytendur við gerð rannsóknarinnar, um 200 manns á Norðurlöndunum alls. Rætt var við um tíu manns hér á landi. Fólk sem er í þessum söluhópum hér á landi býr til gerviaðgang þannig að nafn þeirra kemur aldrei fram. Því gátu rannsakendur fengið aðgang að sölusíðunum. Helgi segir að það hafi komið á óvart að ekki sé aðeins verið að selja kannabisefni á sölusíðunum, heldur alla flóruna; sterk efni, læknadóp og jafnvel stera. „Þetta er gert með mjög fjálglegum hætti, það er að segja lokkandi hætti, freistandi hætti. Sagt er að þetta sé besta efnið á markaðnum. Þá segi um eitt efni að það sendi fólk upp í geim og til baka og fólk verði dúnmjúkt í sófanum heima hjá sér. Einnig eru notuð ýmis auglýsingaslagorð og myndefni og boðið upp á heimsendingarþjónustu.

Kaupendur vita lítið um efnin

Mjög varasamt er að hættuleg efni sem þessi séu seld á sölusíðum á netinu, að sögn Helga. Þau séu auk þess ávanabindandi, fólk viti ekkert um styrkleika efnanna og ef leiðbeiningar fylgi sé ekki víst að hægt sé að treysta þeim. 

Helgi telur að rekja megi dauðsföll vegna neyslu fíkniefna að einhverju leyti til þess á hvaða markaði þau eru seld. „Menn átta sig oft ekki á því hvað raunverulega þeir eru með í höndunum og harmleikurinn hefur átt sér stað. Það er auðvitað þyngra en tárum taki að horfa upp á þetta, svona nokkurs konar frumskóg þar sem er engin löggjöf um neytendavernd er til staðar.“

Lítil samskipti kaupenda og seljenda á Íslandi

Markaðir á Norðurlöndunum fimm voru ólíkir að ýmsu leyti. Helgi segir að hér á landi séu nær engin samskipti á milli seljanda og kaupanda. Það sé yfirleitt kaupandinn sem ákveði afhendingarstaðinn og fólk spjalli yfirleitt ekki. Aftur á móti sé alltaf eitthvða spjall þegar slík viðskipti eigi sér stað í hinum löndunum. Í Svíþjóð er nokkurs konar óformlegt einkunnakerfi fyrir seljendur á síðunum. Þeir sem standi ekki undir væntingum séu merktir með rauðu og þeir sem þykja góðir með grænum lit.