Það skiptir miklu máli um þróun bandarísks samfélags hverjir skipa Hæstarétt landsins. Í síðustu viku tilkynnti Anthony Kennedy að hann ætlaði að láta af störfum sem dómari. Það kemur í hlut Donalds Trump, forseta, að skipa nýjan dómara og val hans getur haft mikil áhrif. Herdís Kjerúlf Þorgeirsdóttir, lögmaður, ræddi áhrif Hæstaréttar Bandaríkjanna á Morgunvaktinni á Rás 1.
Það ætti að skýrast í mánuðinum hvern Donald Trump vill að taki sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna í stað Anthony Kennedy, en þingkosningar verða í nóvember og það getur líka haft áhrif hver skipaður verður. Þetta verður annar dómarinn sem Trump velur en hann skipaði Neil Gorsuch í stað Antonin Scalia árið 2017. Bandarískt réttarkerfi er fordæmisréttarkerfi, dómar Hæstaréttar sem byggjast á túlkun stjórnarskrárinnar setja fordæmi um lagaframkvæmd og þar með þróun samfélagsins. Herdís Kjerúlf Þorgeirsdóttir segir að Anthony Kennedy, fráfarandi dómari, beri mikla ábyrgð á dómi sem haft hefur mikil áhrif á stöðu lýðræðis í Bandaríkjunum. Hann hafi stutt að vikið væri frá mikilvægu fordæmi með dómi 2010, „sem talin er hafa verið ein mesta ógn við lýðræðið á síðari árum,“ eins og Herdís orðar það. „Þetta er Citizen United-dómurinn, þar sem fyrirtækjum var gefið tjáningarfrelsi, fyrirtækin áttu að hafa mannréttindi á sama hátt og einstaklingar - til að hafa áhrif á kosningaúrslit, með því að leggja fram ótakmörkuð fjárframlög til baráttu ákveðinna frambjóðenda, ef þau svo vildu, jafnvel gegn öðrum frambjóðanda, sem þeim hugnaðist ekki.“ Obama, þáverandi Bandaríkjaforseti, sagði þegar þessi dómur féll að hann væri hrikalegur og það yrði að bregðast við honum. En hann gerði ekkert, eins og Herdís Kjerúlf Þorgeirsdóttir benti á á Morgunvaktinni. Hinsvegar hafi Donald Trump strax í upphafi baráttu sinnar fyrir útnefningu Repúblikanaflokksins sagst ætla að „þurrka upp fen spillingar í Washington. Hann ætlaði að koma í veg fyrir sérhagsmuni i Washington og lobbýisma. Hann ætli að koma í veg fyrir að fyrirtæki pundi inn milljörðum til þess að hafa áhrif á niðurstöður löggjafar. Þannig að nú er spurningin: Hvern skipar hann í réttinn?“

Herdís Kjerúlf Þorgeirsdóttir, lögmaður
Morgunvaktin – Óðinn Jónsson