Ferðamálastjóri segir að auka þurfi sjálfvirkni og fækka störfum til að bregðast við tapi á rekstri ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni. Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir hins vegar að stóra áskorunin sé að fjölga heilsársstörfum, ekki fækka þeim.

 

Ferðamálastofa fékk KPMG til að vinna úttekt sem kynnt var í dag. Fram kemur að launakostnaður er orðinn mjög stór hluti af kostnaði ferðaþjónustufyrirtækja. Ferðamálastjóri, Skarphéðinn Berg Steinarsson, segir að það þurfi að bregðast fljótt við og fækka störfum og minnka kostnað.  Arnheiður segist hjartanlega sammála því að það þurfi að bregðast við.

„Þessi skýrsla gefur okkur mjög góða mynd af því sem er að gerast á stórum hluta landsins. Það voru gögn frá Norðurlandi sem sýndu stöðuna þar, á Austurlandi og Vestfjörðum erum við með sambærilega stöðu. Við erum ennþá með mjög mikla árstíðasveiflu. Þessi fyrirtæki þurfa að ná inn öllum sínum tekjum á þremur til fjórum mánuðum og okkar stóra áskorun er að fjölga heilsársstörfum, ekki fækka þeim, þ.e.a.s. að gera ferðamönnunum það kleift að komast út á land allt árið þannig að fyrirtækin geti þá farið að skila betri afkomu," sagði hún í viðtali við Sunnu Valgerðardóttur, fréttamann, í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum

Þannig að þú tekur ekki undir þessar tillögur að fækka störfum og auka tækni og hugbúnaðarþjónustu og annað slíkt? „Nei í raun ekki. Við, markaðsstofur landshluta og Safe Travel, gerðum til dæmis viðamikla skoðun á því hvernig ætti að veita upplýsingar til ferðamanna og það var mjög skýrt úr öllum landshlutum að við erum ekki komin þangað að við getum eingöngu byggt okkar störf á sjálfvirkni. Við þurfum að hafa þennan mannlega hluta líka. Ferðaþjónustan er mannaflafrek atvinnugrein og ástæða þess að á Norðurlandi er launakostnaður mjög hátt hlutfall af tekjum fyrirtækja er einfaldlega sú að menn þurfa að ráða starfsfólk að vori, reka það að hausti, eyða þar af leiðandi miklum kostnaði í þjálfun og það eru minni tækifæri til nýsköpunar. Við þurfum að fara að horfast í augu við hver okkar áskorun er, setja peninga í markaðssetningu og í innviði og í samgöngurnar út á land.“