Stofnandi United Silicon vill fá Tesluna aftur

21.04.2017 - 16:10
epa04727763 The logo of a Tesla Motors Model S is seen at a parking lot of the Tesla Motors Headquarters in Palo Alto, California, USA, 30 April 2015.  EPA/JOHN G. MABANGLO
 Mynd: EPA
Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem fallist var á kröfu héraðssaksóknara um að hald yrði lagt á Teslu-bifreið Magnúsar Ólafs Garðarssonar, fyrrverandi forstjóra United Silicon og eins af stofnendum verksmiðjunnar. Magnús Ólafur er grunaður um vítaverðan akstur á Reykjanesbrautinni nokkrum dögum fyrir síðustu jól.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að Magnús hafi misst stjórn á bíl sínum þann 20. desember þannig að hann lenti utan í annarri bifreið með þeim afleiðingum að báðir bílarnir skemmdust nokkuð og ökumaður hins bílsins var fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á slysa og móttökudeild Landspítalans. 

Í úrskurðinum kemur fram að tilkynningar um ofsaakstur rauðrar Tesla-bifreiðar hafi borist neyðarlínu - bæði í aðdraganda slyssins en líka í kjölfar þess.

Magnús krafðist þess að fá bíl sinn aftur og sagði málið afar einfalt. Hann hafi misst stjórn á bíl sínum vegna ytri aðstæðna og því sé ekkert tilefni til ítarlegrar og íþyngjandi rannsóknar. Þá sé fjárhagslegt verðmæti bílsins töluvert. Magnús sakar jafnframt lögregluna um að hafa farið langt fram úr heimildum sínum og brotið gegn friðhelgi einkalífsins með því að fara í gegnum persónuupplýsingar í bílnum án þess að afla dómsúrskurðar.  

Héraðssaksóknari segir gögn málsins benda til þess að forstjórinn fyrrverandi hafi ekið bílnum með vítaverðum hætti á allt að 183 kílómetra hraða. Sömu gögn bendi til þess að hann hafi keyrt ítrekað síðustu fimm mínúturnar fyrir slysið á yfir 160 kílómetra hraða á klukkustund.  

Í úrskurðinum segir að héraðssaksóknari hafi við rannsóknina meðal annars aflað gagna frá framleiðanda Teslu í gegnum boðskiptatæki bílsins. Þau gögn sýni meðal annars hraða bílsins þegar honum var ekið á og á hvaða tíma. Þá sendi bíllinn sömuleiðis frá sér merki þegar hann lendir í árekstri.  Lögreglan á Suðurnesjum hefur sannreynt þessi gögn og metið þau marktæk og í samræmi við hefðbundnar radar-hraðamælingar lögreglu. 

Héraðssaksóknari telur því að sterkur grunur sé um að Magnús Ólafur hafi sýnt af sér stórfelldan hraðakstur, þar sem ekið hafi verið á meira en tvöföldum hámarkshraða. Aksturinn hafi verið sérlega vítaverður í ljósi þess að þennan dag hafi verið slæmt veður, skyggni takmarkað og vegurinn bæði blautur og háll.  Þá kemur einnig fram að héraðssaksóknari hafi, í ljósi alvarleika brotsins, kannað ökuferil Magnúsar og í ljós hafi komið að hann sé með 10 hraðakstursmál í kerfinu á Íslandi og 1 í Danmörku. 7 þessara mála séu frá síðasta ári. 

 

Þá segir héraðssaksóknari að verði bíllinn leystur út en síðar fallist á upptöku hennar yrði mögulega erfitt að nálgast hana. Til standi að fara með hana til útlanda ef haldi verður aflétt. Þá segir héraðssaksóknari að ástæðan fyrir upptökunni sé meðal annars til að koma í veg fyrir frekari brot.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV