Það er mikilvægt að hafa starfandi verslun til að viðhalda byggð og mannlífi í sveitarfélaginu, segir verkefnastjóri brothættra byggða í Árneshreppi á Ströndum. Fjöldi fólks hefur skráð sig sem hluthafa í nýju einkahlutafélagi fyrir verslun í Norðurfirði.

Þurfa að panta vörur með flugi

Tvær stoðir brustu í samfélaginu í Árneshreppi í haust þegar skólinn var ekki settur og versluninni var lokað. Án verslunar þurfa íbúar að reiða sig á matarsendingar með flugi á Gjögri frá janúar fram í mars þar sem vegurinn sem liggur í næstu verslun er að jafnaði ekki ruddur. „Við teljum það, og það telja það flestir íbúa, að þetta sé svo mikilvægt atriði til að halda byggð og mannlífi í sveitarfélaginu að það sé starfandi verslun að það verði að bregðast við,“ segir Skúli Gautason verkefnastjóri brothættra byggða, Áfram Árneshreppur, í Árneshreppi.

Fundi frestað vegna ófærðar

Gripið hefur verið til þess ráðs að stofna einkahlutafélag um verslun í Norðurfirði og gefst fólki kostur á að kaupa hlut í félaginu fyrir 25 þúsund krónur. Til stóð að halda stofnfund klukkan hálftvö í dag en honum var frestað fram á föstudag vegna ófærðar landleiðina í Árneshrepp. Til stendur að óska eftir mokstri norður í Árneshrepp á föstudaginn, en sveitarfélagið getur óskað eftir helmingamokstri og þá greiðir sveitarfélagið fyrir moksturinn til móts við Vegagerðina.

Margþætt hlutverk verslunar

Skúli segir ljóst að forsendur fyrir verslun í Norðurfirði eru ólíkar milli sumars og veturs. Á sumrin verður gert ráð fyrir því að verslunin verði rekin  með hefðbundnu sniði en á veturna verður verslunin sjaldan opin en til að þjónusta þá fáu sem dvelja í sveitarfélaginu yfir háveturinn, innan við tuttugu manns. Þá gegni verslunin ekki síður hlutverki samkomustaðar en því að verða fólki út um vörur. 

Víðtækur stuðningur

Íbúar geta gerst hluthafar í verslunarfélaginu og jafnframt hefur verið leitað til sumarhúsaeigenda. Skúli segir að margir velunnarar sveitarfélagsins hafi einnig lagt hönd á plóginn. „Það er mjög víðtækur stuðningur við þetta verkefni og margir sem átta sig á því hvað þetta mikilvægt þetta er fyrir samfélagið. Við höfum haft það þannig að það er hámark 100 þúsund á hvern einstakling eða félag til að tryggja dreifða eignaraðild að félaginu og þetta hefur tekist vonum framar,“ segir Skúli.

Rætt var við Skúla í Morgunútvarpinu á Rás 2 og má hlusta á viðtalið við hann í spilaranum efst í fréttinni.