Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að unnið sé hörðum höndum að gerð frumvarpa um afnám fjármagshaftanna. Hann segir að stöðugleikaskattur sé ein leið til að höggva á hnútinn til að hægt verði að losa um höftin. Slitabú bankanna séu ógn við stöðugleikann sem ekki sé hægt að búa við.
Yfirlýsing Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á flokksþingi framsóknarmanna um að hér verði lagður á stöðugleikaskattur hefur valdið mörgum heilabrotum því enn hefur ekki verið upplýst um hverskonar skatt sé að ræða. Skatturinn verður liður í að afnema fjármagshöftin án þess efnahagslegum stöðugleika verði ógnað og hann á, að sögn Sigmundar Davíðs, að skila hundruðum milljarða króna. Hann upplýsti jafnframt að fyrir þinglok yrði lögð fram áætlun um losun haftanna. En á meðan Sigmundur Davíð lýsti þessu yfir var Bjarni Benediktsson í páskafríi á Flódrída. Hann er kominn til landsins og hefur ekki tjáð sig um yfirlýsingar forsætisráðherra fyrr en í dag.
Bjarni segir að hann og Sigmundur séu í ágætu samstarfi um þessi mál og að þeir hafi verið frá miðju síðasta ári verið með erlenda ráðgjafa þeim til fulltingis. Þessari vinnu hafi miðað vel. Hann vilji að þetta ár verði ár aðgerða.
Unnið sé hörðum höndum að því að ljúka við frumvarp í tengslum við losun haftanna. Bráðum séu liðin 7 ár frá því að fjármagshöftunum var komið á. Enn hafi ekki komið raunhæfar tillögur frá slitabúunum.
„Það þýðir að slitabúin eru enn sú ógn við stöðugleikann sem við getum ekki sætt okkur við."
Bjarni segir að öll vinnan við losun haftanna miðist við að viðhalda stöðuleika. Stögugleikaskattur sé ein leið til að höggva á hnútinn svo að losa megi um höftin samhliða því að gert verði upp við kröfuhafana.
„Stöðugleikaskatturinn vísar til þess að hann er fyrst og fremst hugsaður til að gera okkur kleift að afnema höftin án þess að stöðugleikanum sé ógnað," segir Bjarni Benediktsson