„Stjórnvöld hafa unnið sína vinnu vel,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Hann segir eftirlitsaðila hafa fylgst náið með alveg frá því að fyrstu merki um að WOW air ætti í vanda.
Bjarni var gestur Kastljóss í kvöld þar sem hann ræddi gjaldþrot WOW air og þau áhrif sem það kann að hafa á efnahagslífið og ríkisfjármálin.
Spurður hvort stjórnvöld hefðu átt að stíga fastar inn í þá stöðu sem flugfélagið var komið í segist Bjarni vera þeirrar skoðunar að það verði að leyfa markaðinum að reyna að bjarga sér, áður en ríkisstjórnin fari að skipta sér af.
„Það verður held ég að vera matsatriði þegar slík staða kemur upp hvort það séu til trúverðugar áætlanir um að vinna bug á þessu, eða hvort að menn eigi að stíga inní og segja hér eru skilyrðin ekki lengur uppfyllt,“ segir Bjarni.
„Fyrir mína parta þarf að beita meðalhófi við svona aðstæður. Ég tel að menn hafi haldið vel á þessum málum. Það er ekki Samgöngustofu eða eftirlitsaðilum að kenna hvernig komið er fyrir félaginu.“
Spurður um nærri tveggja milljarða króna skuld sem WOW hefur safnað hjá Isavia segist Bjarni ekki vita betur en að Isavia viti hvað það er að gera. Tvær vélar sem voru á vegum WOW air hafa verið kyrssettar á Keflavíkurflugvelli og skuldin færð á leigusala WOW air, eiganda vélanna.
Bjarni segir efnahagskerfið á Íslandi vera vel í stakk búið til þess að takast á við áfall sem þetta. „Við getum tekið við áföllum án þess að fara að safna skuldum. Ég skil það vel að það verði til hugrenningatengsl við fyrri áföll. En þetta áfall er ekkert í líkingu við það sem við vorum að fást við fyrir tíu árum.“
„Til lengri tíma þá held ég að þetta muni jafna sig og Ísland verður jafn eftirsóknarverður áfangastaður og áður. Ég er ekki þeirrar skoðunar að þetta sé slíkt risaáfall fyrir efnahagslífið og að við séum komin í eitthvað gamalkunnugt far þar sem verðbólgan rís og atvinnuleysi verður þannig að það verði ekki við neitt ráðið,“ segir Bjarni Benediktsson.