Stjórnmálamenn hafa brugðist ungu fólki og eru að kasta framtíð okkar á glæ segir Sigurður Thorlacius ritari Ungra umhverfissinna á Íslandi. Hann var loftslagsráðstefnunni í Póllandi þar sem ungt fólk tók höndum saman til að krefjast betri árangurs og til þess að fá rödd við samningaborðið.
Ungt fólk tekur höndum saman gegn loftslagsbreytingum
Ungir umhverfissinnar stóðu fyrir stofnun tengslanets ungmenna á norðurslóðum Arctic Youth Network á árinu og gerðu m.a. myndband til að dreifa boðskapnum. Markmiðið með því er að ungt fólk berjist saman gegn loftslagsbreytingum og vinni að því að sameina lífbreytileika og menningarlegu jafnrétti.
Ungir umhverfissinar voru í fyrsta sinn á loftslagsráðstefnu og var aðalmarkmiðið að kynnast fleiri ungmennum, kynna tengslanetið og fræðast um hvernig samningaviðræðurnar fara fram og ennfremur tala fyrir auknum og meiri aðgerðum í loftslagsmálum.
Talað í tæp 30 ár án árangurs
Er ungt fólk óánægt með árangurinn af loftslagsráðstefnum?
„Já klárlega. Þetta er í rauninni alveg stórskrítið að það er 1992 sem rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál er samþykktur. Og nú eru komin tæp 30 ár og við erum ennþá að auka losun á hverju ári. Losun milli ára núna 2017 - 2018 jókst um 3%. Þannig að í rauninni hafa stjórnmálamenn svolítið brugðist okkur. Þarna er verið að kasta framtíð okkar á glæ. Vegna þess að ungmenni í dag munu þurfa að þola mest af áhrifum loftslagsbreytinga.“
Sigurður sagði að mikið af ungu fólki á ráðstefnunni hafi verið að mótmæla og benda á að ekki væri nóg af aðgerðum. „Þetta hefur ekki verið tekið nógu föstum tökum og svolítið verið að hika. Við viljum að stórnmálamenn séu hugrakkir og taki þau skref sem þarf að taka.“
Ungt fólk tekur höndum saman - Youngo
Ungir umhverfissinnar finna fyrir auknum áhuga og samtökin hafa stækkað mikið.
Á loftslagsráðstefnuninn var ennfremur stór hópur ungmenna sem nefnist Youngo sem talar einni röddu fyrir hönd ungmenna. „Við erum núna komin í þann hóp sem hefur það markmið að taka þátt í þessum viðræðum um loftslagsmál og reyna að koma málum áfram. Viljið þið komast að samningaborðinu? Já klárlega í rauninni er skrýtið að við séum ekki eins mikið við samningaborðið eins og verið hefur vegna þarna er verið að ákveða framtíð okkar og þá er eðlilegt að við fáum að taka þátt í viðræðunum.“
Þrír möguleikar í stöðunni
Sigurður segir að ungmenni eigi sæti í sendinefndum norrænna þjóða og þau taki beinan þátt í viðræðunum.
Ennþá er ekkert að frétta af árangri viðræðanna og nokkrir valdamiklir leiðtogar sitji aðgerðarlausir eða vinni markvisst gegn árangri.
Ef þetta tekst ekki hvað gerist þá?
Sigurður segir að það sé þrennt sem geti gerst. „Það getur verið að það verði samið um voðalega veikt samkomulag sem sagt ekki strangar reglur um hvernig á að skila bókhaldinu, hversu gagnsætt þetta á að vera og þá verður erfiðara að fylgjast með árangri.“
„Eða það verður mjög sterkt samkomulag sem er samþykkt eða því verður hafnað. Það setur þetta þá í upnám ef því verður hafnað og það kemur í ljós á morgun þegar ráðstefnunni lýkur. “
Tilvist okkar í framtíðinni er í hættu
Sigurður segir að ungt fólk þurfi að taka til máls og láta í sér heyra. „Þetta er ekki í lagi. Það er verið að setja tilvist okkar í framtíðinni í hættu með því að bregðast ekki nógu snemma við þessu og með hverju árinu sem við bíðum þá veðrur erfiðara að bregðast við. Þannig að það er mjög mikilvægt að bregðast strax við og ég held að ungt fólk sé alltaf að kalla eftir strangari aðgerðum.“