Stjórnarandstæðingar fagna í Kenía

01.09.2017 - 11:50
epa06176629 Supporters of The National Super Alliance (NASA) opposition coalition and its presidential candidate Raila Odinga celebrate in front of the Supreme Court after learning that the court ruled in favor of Odinga in central Nairobi, Kenya, 01
Stjórnarandstæðingar fögnuðu þegar dómsniðurstaða var kynnt.  Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Stjórnarandstæðingar í Kenía fagna niðurstöðum hæstaréttar landsins sem í morgun ógilti úrslit forsetakosninganna í nýliðnum mánuði og fyrirskipaði að kosið yrði á ný. Hæstiréttur tók undir yfirlýsingar frambjóðanda stjórnarandstöðunnar um misferli í kosningunum.

David Maraga, forseti hæstaréttar, greindi frá dómsniðurstöðu í morgun og sagði að framkvæmd kosninganna hefði ekki samræmst stjórnarskrá. Kjósa þyrfti aftur innan tveggja mánaða.

Fjöldi stjórnarandstæðinga, sem beðið hafði niðurstöðunnar við hús hæstaréttar fagnaði ákaft. Að sögn breska útvarpsins BBC er þetta í fyrsta skipti sem dómstóll í Afríku ógildir forsetakosningar.

Eftir kosningarnar 8. ágúst lýsti yfirkjörstjórn því yfir að Uhuru Kenyatta hefði verið endurkjörinn forseti landsins. Keppinautur hans Raila Odinga viðurkenndi ekki úrslitin. Hann staðhæfði að brotist hefði verið inn í tölvukerfi kjörstjórnar og úrslitum hagrætt Kenyatta í vil.

Eftir kosningarnar sló í brýnu milli fylgismanna beggja frambjóðenda og féllu allt að 30 manns. 

Odinga fagnaði í morgun niðurstöðu hæstaréttar, sagði þetta sögulega stund fyrir íbúa Kenía og allrar Afríku. Hann hvatti til að kjörstjórn yrði sótt til saka og kvaðst ekki bera neitt traust til hennar.

Lögmaður Kenyatta kvað pólitíska lykt af dómi hæstaréttar, en hann bæri engu að síður að virða. 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV