„A Very English Scandal minnir okkur einnig á þá tíma þegar pólitíkusar voru gerðir ábyrgir fyrir mistökum sínum og þurftu að taka afleiðingunum,“ segir sjónvarpsrýnir Lestarinnar um þættina A Very English Scandal sem skarta Hugh Grant í einu aðalhlutverkanna.
Áslaug Torfadóttir skrifar:
Árið 1976 braut breski þingmaðurinn og leiðtogi Verkamannaflokksins Jeremy Thorpe blað í sögunni þegar hann varð fyrstur þingmanna til þess að birtast fyrir dómara ákærður um samsæri um morð. Málið vakti eðlilega mikla athygli og breska slúðurpressan fór á fullt í að rífa niður þennan mann sem hafði hingað til notið virðingar og vinsælda. Thorpe sagði af sér í kjölfarið og starfaði aldrei aftur á þingi. Þetta sérstaka mál er umfjöllunarefni nýju míní-seríu Amazon sem ber nafnið A Very English Scandal.
Undanfari málsins var samband Thorpe við ungan mann að nafni Norman Josiffe, seinna Scott. Thorpe var samkynhneigður en djúpt inni í skápnum, enda var samkynhneigð ennþá ólögleg í Bretlandi þegar hann og Scott kynntust árið 1961. Eftir stutt en ástríðufullt samband þorði Thorpe ekki lengur að taka sénsinn á að halda sambandinu leyndu þar sem pólitísk stjarna hans reis mjög hratt og kastaði Scott á dyr. Allslaus og óstabíll greip Scott til þess ráðs að hóta að koma upp um Thorpe nema að sá síðarnefndi myndi redda fyrir hann nýju tryggingakorti sem var nauðsynlegt að hafa til þess að Scott gæti fengið vinnu.
Það hefði ekki verið mikið mál fyrir Thorpe að koma því í kring og hefði hann getað sparað sér heilmikið vesen með því að láta Scott bara hafa þetta blessaða kort, en það er kannski til marks um kaldlyndi Thorpe gagnvart fyrrum elskhuga sínum að hann lét aldrei verða af því og hunsaði hótanir Scott með öllu, þess fullviss að forréttindi hans og staða í lífinu myndu vernda hann. En Scott var ekki á því að láta Thorpe komast upp með þessa hegðun og hélt áfram með jöfnu millibili í gegnum árin að bæði hóta að segja frá og láta verða af því. Hann reyndi ítrekað að selja sögu sína í blöðin, sem höfðu þó lítinn áhuga á þeim tíma, enda naut aðalinn ennþá ákveðinnar virðingar og fengu yfirleitt að eiga sín leyndarmál í friði.
Það var ekki fyrr en Scott skrifaði mömmu Thorpe langt bréf þar sem hann fór í smáatriðum yfir samband þeirra að Thorpe lagði loks við hlustir og ákvað að gera eitthvað í málunum. Því miður fyrir Scott, þá var lausn Thorpe sú að losa sig við hann fyrir fullt og allt og fékk hann til þess vini sína úr þinginu, ásamt teppasölumönnum og drykkfelldum flugmanni. Engum að óvörum þá gekk planið ekki smurt fyrir sig og Scott slapp með skrekkinn, á meðan Thorpe og vitorðsmenn hans voru sóttir til saka fyrir tilraun til manndráps.
Sambland af Crown og Cohen
Það er handritshöfundurinn og Dr. Who hetjan Russel T. Davies sem skrifar alla þrjá þættina. Eins og hans er von og vísa þá eru handritin þétt og vönduð og feta línuna á milli húmors og alvarleika af öryggi. Leikstjórn er í höndum Stephen Frears sem þekkir vel inná uppátæki bresku yfirstéttarinnar eftir að hafa leikstýrt myndum á borð við The Queen og Florence Foster Jenkins. Þættirnir minna um margt á Netflix hittarann The Crown, enda gerast þeir á svipuðum tíma og seinni þáttaröð þeirrar seríu, en A Very English Scandal slá þó mun léttari tón, stundum kannski of léttan miðað við það að þeir fjalla um alvöru fólk og alvöru morðtilraun.
Í höndum Frears og Davies verða þættirnir að einhvers konar samblandi af Crown og Coen-bræðra mynd en eru þó alltaf sterkastir þegar þeir muna eftir harmleiknum sem er kjarni atburðanna, mönnunum sem fá ekki að vera þeir sjálfir og elska þá sem þeir vilja elska. Og þar kemur til kasta aðalleikaranna tveggja. Hugh Grant og Ben Wishaw hafa leikið á móti hvorum öðrum áður í hinni yndislegu Paddington 2 en þetta er í fyrsta skipti sem þeir mætast á skjánum þar sem þeir eru báðir í mannslíki. Samleikur þeirra er í raun aðeins hluti af fyrsta þættinum en er svo sterkur að hann litar allt sem á eftir fer. Áhorfendur skynja sársaukann og söknuðinn sem liggur að baki gjörðum beggja og samúðin er hjá þeim báðum, svona þangað til að Thorpe fer að panta morð eins auðveldlega og hann pantar te. Hugh Grant þarf ekki að kynna fyrir neinum en hann skaust uppá stjörnuhimininn á tíunda áratugnum sem hinn sjarmerandi og stamandi aðalleikari í rómantískum gamanmyndum á borð við Four Weddings and a Funeral og Notting Hill.
En hlutverk góða, hættulausa rómantíkerins sat aldrei vel í Grant og eftir að hann gekk í gegnum vel auglýstan skandal sjálfur dró hann sig í hlé frá kvikmyndaleik um nokkurt skeið. Hann kom svo aftur í hlutverki flóttuga fávitans Daniel Cleaver í Bridget Jones Diary þar sem hann naut þess bersýnilega að gefa fyrri imynd sinni fingurna tvo. Eftir annað dágott hlé virðist Grant svo loks hafa fundið sína réttu hillu. Aldurinn hefur sett sitt merki á andlit hans og þó að sjarminn sé vissulega enn til staðar þá er stutt í fúla yfirstéttabretann sem nýtur þess að þurfa ekki að pæla í hvað öðrum finnst. Í hlutverki Thorpe nýtir hann þetta allt saman og sýnir það um leið að hann er fantagóður leikari. Thorpe er margslunginn karakter sem sýnir á sér nýja hlið eftir því við hvern hann er að tala en Grant er þó sterkastur í þau fáu skipti sem Thorpe er einn og lætur grímuna falla svo við sjáum hversu mikinn toll leynileikurinn í gegnum árin hefur tekið á hann.
Ekki eru allar breytingar til hins betra
Ben Wishaw hlaut Golden Globe verðlaunin fyrir túlkun sína á Norman Scott og er vel að þeim kominn. Wishaw er einn færasti leikari Breta um þessar mundir, bæði á skjánum og á sviði og hefur þann hæfileika að geta, að því er virðist áreynslulaust, opnað sig alveg innað kviku. Í höndum hans er Norman, sem hefði getað verið frekar fráhrindandi karakter, bæði sympatískur, flókinn og umfram allt leiftrandi af mennsku. Norman er sá eini af aðalpersónum þessarar sögu sem er enn á lífi og er að eigin sögn hæstánægður með túlkun Wishaw þó að hann hafi ekki enn fengið tryggingakortið sitt.
A Very English Scandal er svo sannarlega réttnefni þar sem það er eitthvað alveg óendanlega enskt bæði við afkáranlega skipulagninguna á glæpnum, en leigumorðinginn var sveitaflugmaður sem tók að sér verkið eftir að vera búinn með 16 bjóra á pöbbnum, eflaust í blakkáti, og árangurinn smart eftir því, en líka í því hvernig stéttaskipting og bæling á mannlegu eðli spilar stóran þátt í atburðunum. Það er vissulega sárt að horfa uppá afleiðingar þess að neita fólki um sjálfsögð mannréttindi, hvernig það fer með fólk þegar þér er sagt að þú sért ekki aðeins ónáttúrulegur heldur bókstaflega ólöglegur. En A Very English Scandal minnir okkur einnig á þá tíma þegar pólitíkusar voru gerðir ábyrgir fyrir mistökum sínum og þurftu að taka afleiðingunum, og sannar þar að ekki eru allar breytingar til hins betra.