Við hjónin erum að hugsa um að flytja í minna húsnæði einhvern tímann á næstunni, enda börnin flutt að heiman og plássþörfin orðin miklu minni en hún var fyrir 20 árum þegar við fluttum inn í húsið þar sem við búum í dag. Og þegar maður stendur frammi fyrir því að flytja í minna húsnæði eftir öll þessi ár rennur það upp fyrir manni að í minna húsnæði er ekki pláss fyrir alla hlutina sem maður hefur sankað að sér í tímanna rás.

 

Stefán Gíslason fjallar í pistli í Samfélaginu á Rás 1 um alla þá hluti, dót og drasl sem safnast að okkur á lífsleiðinni og kostnaðinn við að kaupa hluti sem við þurfum ekki. 

Höfum sankað að okkur alls kyns hlutum

Þess vegna réðumst við í víðtæka tiltekt á dögunum í þeim tilgangi að fækka hlutunum og búa þannig í haginn fyrir næstu skref. Við hjónin erum líklega ekkert mikið frábrugðin öðru fólki sem komið er á miðjan aldur eða rúmlega það. Við höfum sem sagt sankað að okkur alls konar hlutum. Auk þess höfum við – og börnin okkar líka – yfirleitt farið vel með dótið okkar. Þess vegna eru miklar líkur á því að hver sá hlutur sem við höfum einhvern tímann borið inn í húsið okkar sé þar enn – og jafnvel í býsna góðu standi.

Minningar og endanlegir áfangastaðir hlutanna

Meiri háttar tiltekt getur verið erfið frá tilfinningalegu sjónarmiði, því að flestir hafa tilhneigingu til að tengja einhverjar minningar við einstaka hluti. Að öðru leyti ætti meiri háttar tiltekt ekki að vera neitt stórmál. Hún tekur vissulega sinn tíma og reynir aðeins á skrokka sem eru ef til vill óvanir því í seinni tíð að bera mikið af pappakössum, húsgögnum og raftækjum. En við nútímafólkið búum flest svo vel að hafa góðan aðgang að gámastöðvum sem taka við hverju sem er og virka möglunarlaust eins og flugvellir fyrir tengiflug á leið á hinn endanlega áfangastað, hvort sem hann er urðunarstaðurinn í Fíflholtum, endurvinnsluverksmiðja í Svíþjóð eða ruslahaugur í borg í Ghana.

Sumt á sér eðlilegar skýringar

En málið er bara ekki alveg svona einfalt. Það að maður þurfi að fara með einhver ósköp af dóti á gámastöð þýðir einfaldlega að maður hefur sankað að sér of miklu dóti í tímanna rás. Sumt af því á sér vissulega skýringar í örri tækniþróun. Þannig er kannski ekkert óeðlilegt að fólk eigi dálítið af VHS-spólum, DVD-diskum og jafnvel geisladiskum, sem hvorki það sjálft né nokkur annar hefur lengur not fyrir. Þannig hefur þetta svo sem alltaf verið. Á æskuheimili mínu var til dæmis bæði til klifberi og meis, sem hvort tveggja höfðu verið gagnlegir hlutir á sínum tíma, en sem ekki var lengur þörf fyrir. En þetta gildir bara um lítinn hluta af dótinu. Stór hluti af því sem fer á gámastöðina eru hlutir sem maður hefði eftir á að hyggja aldrei þurft að eignast, þ.e.a.s. hlutir sem eftir á að hyggja flokkast sem óþarfi. Það er þar sem umhverfismálin koma inn.

Unnið fyrir öllu dótinu

Í hvert sinn sem maður fer með óþarfa upp á gámastöð eða hendir óþarfa beinlínis í ruslið er maður að gefa frá sér hluta af tímanum sem maður fékk í vöggugjöf. Næstum allur þessi óþarfi var nefnilega keyptur á sínum tíma fyrir peninga, sem annað hvort maður sjálfur eða einhver annar fékk í skiptum fyrir hluta af tímanum sínum. Og næstum allur þessi óþarfi var líka framleiddur á kostnað umhverfisins og samfélagsins, með öðrum orðum á kostnað komandi kynslóða, án þess að sá kostnaður væri felldur inn í kaupverðið. Þegar einhverjum hlut er fargað er þar af leiðandi ekki bara verið að farga þessu sýnilega stykki, heldur er líka verið að farga orkunni og efninu sem fór í að framleiða hlutinn og förgunin felur líka í sér staðfestingu á því að úrgangurinn sem varð til við framleiðsluna hefði aldrei þurft að verða til, að loftslagsáhrif framleiðslunnar voru óþörf, að skógurinn var ruddur til einskis og að fólkið í framleiðslulandinu hefði átt betra skilið.

Dótviskubitið gæti haft fælingarmátt

Nú er eðlilegt að spurt sé hvort það sé samt ekki gott að ráðast í almennilega tiltekt og einfalda líf sitt. Sé til eitt einfalt svar við þeirri spurningu, er það vafalítið jákvætt. Tiltektin færir manni m.a. lærdóm um tilgang eða tilgangsleysi hlutanna og minnir mann á að gera ekki sömu mistökin aftur. Tiltektin minnir mann með öðrum orðum á að hugsa áður en maður byrjar aftur að sanka að sér dóti og verður þá kannski til þess að maður fer betur með tímann sinn í framtíðinni, þ.e.a.s. þann hluta tímans sem maður fékk í vöggugjöf og á enn eftir að nota. Og tiltektin vekur líka upp samviskubit vegna rangra ákvarðana í fortíðinni, þ.e.a.s. ákvarðana um að eignast dót sem maður þurfti ekki á að halda. Þetta er líklega það sem kalla mætti dótviskubit og getur haft fælingarmátt þegar kemur að næstu ákvörðunum um að sanka að sér hlutum.

Betra að kaupa minna en að henda meira

Þessi misserin er oft talað um mínimalískan lífsstíl og stundum virðist manni að til þess að geta sagst hafa tileinkað sér þennan lífsstíl þurfi maður að byrja á að henda öllu dótinu sínu. Frá umhverfislegu sjónarmiði er þó önnur leið snöggtum betri, þ.e.a.s. sú leið að eignast aldrei dót sem maður áttar sig skömmu síðar á að var óþarfi, eða með öðrum orðum að hugsa ekki bara áður en maður hendir, heldur áður en maður kaupir.

Tíminn of dýrmætur til að enda á haugunum

Tími er það eina sem við eigum þegar við fæðumst. Og við eigum betra skilið en að þessum tíma sé skipt út fyrir óþarfa. Í stað þess að láta tímann af hendi í skiptum fyrir peninga sem eru aftur látnir af hendi í skiptum fyrir dót sem við þurfum ekki, ættum við að nota sem stærstan hluta af þessari dýrmætu vöggugjöf í ánægjustundir með börnunum okkar og öðru því fólki sem skiptir okkur mestu máli í lífinu. Tíminn er of dýrmætur til að enda vestur í Fíflholtum eða uppi í Álfsnesi. Þess vegna ráðlegg ég fólki sem er núna að byrja búskap að draga ekki neitt inn á heimilið sitt sem gæti átt eftir að fara þaðan út aftur, lítið sem ekkert notað, eftir 20 eða 40 ár.