Starfsumhverfi listamanna á Íslandi þarf að verða í samræmi við þá menntun og reynslu sem listamenn þjóðarinnar búa yfir. Það á við bæði um starfskjör þeirra, styrkveitingar og rannsóknarumhverfi. Þetta er mat Erlings Jóhannessonar sem tók við embætti forseta Bandalags íslenskra listamanna fyrr á þessu ári, en í bandalaginu eru fimmtán fagfélög sem auðvitað eiga sér mislanga hefð og sögu.

Erling Jóhannesson, leikari , leikari og gullsmiður, segir það að taka við forsetaembætti í bandalaginu vera dálítið snúið. Starfið sé opið fyrir túlkun og áherslum þess sem við því tekur

„Tilfinningin er stundum dálítið þrúgandi,“ segir Erling og kímir. „Menning og listsköpun í landinu er mikið og stórt og veigamikið mál og í þessari stöðu er maður stundum svolítið einn á vaktinni. Bandalagið er stórmerkilegt í stuttri sögu fullvalda þjóðar. Tíu árum eftir að Ísland verður fullvalda er það stofnað, nánast í umhverfi sem varla á borgarastétt. Þá er lítil hefð fyrir þessu lærða samfélagi sem var komið vel á veg í Evrópu. Það er merkilegt að sjá þennan hóp listamanna sem stofnar þetta fyrir 90 árum. Maður hugsar bara hvaða sérviska þetta var í þessu fólki að helga sig listinni í þessu umhverfi. Það er í rauninni alveg stórmerkilegt og við eigum þessu fólki mikið að þakka og það er mikil ábyrgð að vera hlekkur í þessari keðju,“ segir Erling. 

„Þegar ég tók við embættinu ákvað ég að taka þetta ekki með neinu áhlaupi heldur að leyfa mér í fyrstu hvað brann á listamönnum. Um leið og þetta er mikil ábyrgð þá er þetta spurning um að vera örlítið „kreatífur“, opinn og leitandi.“

Fagleg vinnubrögð er krafan

Eitt af hlutverkum bandalagsins er að veita stjórnvöldum ráðgjöf í málefnum er varða listir og menningu og það hlutverk lendir að stórum hluta til á herðum forseta félagsins. Erling segir að sér litist vel á þá hlið mála.

„Það er enginn fyrirstaða í stjórnsýslunni hvað varðar það samtal, hvort sem er á sveitarstjórnar- eða landsvísu, Það er pólitískur vilji og pólitískur áhugi og meðvitund til staðar. Við erum hins vegar oftast að „díla við“ að halda umræðunni faglegri. Að hún eigi sér uppruna og rök í listinni sjálfri. Það er hlutverk stjórnvalda að halda reglugerðum og lagaramma úti og fjárveitingum en listrænu umræðunni verður bara stjórnað af listamönnum.“

Skortur á tölum og staðreyndum

Erling bendir á að í mörgum greinum þjóðlífisins og atvinnulífisins sé hægt að benda á árangur og tölfræði. „Það sem háir okkur í þessu samhengi er að við eigum svo litla hefð fyrir hagtölum í þessum geira. Sú litla þekking sem er til á þessu sviði er ekki samanburðarhæf við önnur lönd og safnast ekki nægilega vel upp milli ára. Þetta gerir samtalið við hið opinbera erfiðara, á meðan við vitum öll að listir og menning hafa gildi í sjálfu sér.“