Þórarinn Guðnason formaður Læknafélags Reykjavíkur segir að nánast allir sérgreinalæknar sem hafi verið á rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands hafi tilkynnt að þeir ætli ekki að starfa samkvæmt samningnum frá og með áramótum. María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga telur ekki líklegt að búið verði að semja um áramótin.    

Vinna ekki á útrunnum samningi

Samningurinn rennur út um áramótin en ákvæði er í honum sem gerir kleift að framlengja hann um mánuð í senn. Þórarinn segir að það ákvæði hafi verið sett í samninginn til að tryggja áframhaldandi starfsemi á meðan verið sé að semja og þegar einhverjar vikur vanti upp á að náist saman. Ekki sé hægt að reka læknisþjónustu mánuði í senn. 

„Svoleiðis skammtímasamningar eru bara ekki góðir, hvorki fyrir sjúklingana eða okkur. Við getum þá ekki gefið sjúklingunum tíma fram í tímann. Við erum mörg bókuð hálft ár fram í tímann. Og þar af leiðandi er mjög óhentugt að hafa skammtímasamninga. Þannig að það sem við tilkynntum Sjúkratryggingum Íslands um fyrir 1. október er að 333 læknar, næstum því allir læknar sem eru á þessum samningi, að við myndum ekki vinna á útrunnum samningi.“

Betra að starfa fyrir utan kerfið 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lagt til að rammasamningur Sjúkratrygginga við sérfræðilækna verði framlengdur um ár. Þórarinn segir að ekki gangi að framlengja samninginn svona mikið. Framlenging á honum sé hugsuð sem skammtímaúrræði. 

„Og að fara að gera það í mánuð í senn í ár eins og var stungið upp á er einfaldlega ekki hægt. Þá er í raun og veru betra fyrir okkur að geta sagt bara við sjúklingana, við verðum bara fyrir utan kerfið. Við höfum opið og veitum þjónustuna, þannig geta allir sjúklingar verið öruggir um það að allar tímabókanir standi og allt slíkt. En þá verður spurningin um það hvernig greiðsluþátttöku ríkisins í okkar þjónustu verði háttað.“   

Þórarinn segir að tvær leiðir séu mögulegar. Annars vegar að sjúklingarnir borgi fullt gjald hjá lækninum og fái pappírsreikning sem þeir fari með til Sjúkratrygginga til að fá endurgreitt. Hin leiðin sé að ráðherra setji reglur um endurgreiðslu og þá er hægt að nota þau rafrænu kerfi sem til eru og sjúklingurinn finni lítið fyrir breytingunni. 

Þarf faglegt mat til að starfa á samningi

Rammasamningi Sjúkratrygginga og sérgreinalækna var lokað samkvæmt fyrirmælum frá velferðaráðuneytinu um mitt ár 2017. Alma Gunnarsdóttir læknir fór í mál við ríkið og felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úr gildi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að hafna umsókn Ölmu um aðild að samningnum. Var það mat dómsins að ekki hafi verið lagt fullnægjandi mat á umsókn Ölmu og þannig brotið gegn lögmætisreglunni og meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat stjórnvalda. Síðan dómurinn féll hafa nokkrir læknar verið teknir inn í samninginn en nokkrum hafnað.

María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga segir að dómurinn gangi í báðar áttir. „Í dómsorðinu þá kom mjög skýrt fram að það þyrfti að fara fram faglegt mat og það væri í rauninni grundvöllur bæði þess að læknir færi inn á samning eða að honum yrði neitað um að fara inn á samninginn. Þannig að það þarf í rauninni faglegt mat í báðum tilvikum, hvort sem að einstaklingi er hleypt inn á samninginn eða neitað um aðild að samningnum.“

Þýðir þetta að það að þurfi að endurskoða alla lækna sem eru núna með samning? „Ég held nú svona á þessu stigi að þá myndum við frekar vilja horfa á þetta þannig að þessi núgildandi samningur, hann er að renna út og við erum að byrja á nýjum samstarfsverkefnum og til grundvallar þeim að þá reikna ég með að við leggjum mat á þörf og þjónustu þannig að það má segja að við séum að byrja svolítið upp á nýtt.“

Ekki líklegt að samið verði fyrir áramót


María segir að velferðarráðuneytið sé að leggja lokahönd á samningsmarkmið heilbrigðisyfirvalda sem verða væntanlega komin til Sjúkratrygginga í næstu viku. Hún vonar að hægt verði að hefja samningaviðræður fljótlega.
 
„Engu að síður þá finnst mér ekkert sérstaklega líklegt að það verði búið að hnýta alla enda fyrir áramót en ég hef ekki heyrt að það sé formleg afstaða sérfræðilækna að það verði samningslaust þá. Það er bara eitthvað sem við eigum eftir að ræða við sérfræðilækna, hvaða flötur er á því að framlengja og þá hugsanlega með hvaða hætti.“

Þórarinn segir að sérgreinalæknar hafi hitt heilbrigðisráðherra tvisvar og farið yfir þeirra hlið á málinu. „Hluti eins og það að vegna eðlis starfsemi okkar og sjúklinganna vegna þá óskum við eftir langtímasamningi og að það verði ákveðið stabilitet og öryggi í þessu öllu.“

Eftir áramót getur staðan verið sú að sérgreinalæknar starfi ekki lengur samkvæmt rammasamningnum og nýr samningur verði ekki tilbúinn. Hvað þýðir það fyrir þá sem þurfa á þjónustu læknanna að halda?

„Ég vil nú bara ekki trúa öðru heldur en að við komumst að samkomulagi um það hvernig við höldum áfram að veita sjúklingum þjónustu en ef það fer svo illa að um að þessir samningar hreinlega falla niður þá er það bara ný staða sem heilbrigðisyfirvöld þurfa að móta stefnu um,“ segir María.