Bandaríkin vinna markvisst gegn því að árangur náist á loftslagsráðstefnunni, segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem er nýkominn heim frá Póllandi. Bandaríkin, Rússland og Sádi-Arabía komu í veg fyrir að svört skýrsla vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar fengi hljómgrunn.
Tortryggni og skortur á trausti
Vonast er til að á ráðstefnunni verði hægt að breyta fyrirheitum, sem gefin voru á loftslagsráðstefnunni í París 2015, í raunverulegar og áþreifanlegar aðgerðir. Til að árangur náist verður, samkvæmt skýrslu vísindanefndarinnar, að gera mun betur en lofað var í Parísarsáttmálanum.„Þannig að það liggur á. Við höfum ekki langan tíma. Við höfum kannski fram að 2030 og þá er það spurningin hvort ríkjum tekst að leggja fram ný markmið sem ganga lengra. Þetta var svona stóra málið. En svo eru alltaf fleiri mál, t.d. fjármögnun sem iðnríki höfðu lofað þróunarríkjunum, 100 milljörðum dollara á ári frá og með árinu 2020. Það bólar ekki mikið á þeim peningum og þess vegna ríkir innan Sameinuðu þjóðanna tortryggni og skortur á trausti.“
Svarta skýrslan fékk ekki hljómgrunn
Skýrsla vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna fékk ekki hljómgrunn á ráðstefnunni. „Það átti að ganga frá því hvernig hún yrði meðtekin í textanum. Og í staðinn fyrir að segja að ríki fögnuðu þessari skýrslu þá vildu Bandaríkin, Rússland og þessi sádiarabíski prins einungis segja að við höfum séð þessa skýrslu og tekið eftir henni. Hvað þýðir það á svona pólitísku máli? Það þýðir að hún er ekki lögð til grundvallar þeirri vinnu sem nú er að hefjast.“
Ráðherravika hófst á loftslagsráðstefnunni í morgun og vonast er til að ráðherrunum takist að ganga frá málunum fyrir föstudagskvöld. Skýrsla vísindanefndarinnar er ekki það grundvallarrit sem hún ætti að vera, „vegna þess að Bandaríkjunum, Trump, Rússlandi, Pútín, og þessum morðóða prinsi hefur tekist að draga úr vægi þessarar skýrslu. Það er mjög mjög slæmt.“ Er þá hægt að segja að Bandaríkin, Trump og viðhorf hans til samningsins og það að hann dró Bandaríkin út úr þessu samkomulagi, sé farið að hafa áhrif á möguleikana á loftslagsráðstefnunni? „Já, það er það sem hann vill gera en honum hefur ekki tekist það hingað til og vonandi tekst honum það ekki.“
Bandaríkin reyna að vinna gegn árangri
Árni segir að Bandaríkin séu það ríki sem hafi haft mest áhrif á gerð samninga um verndun umhverfisins síðan 1945. Þau hafi yfirleitt haft forystu í þessum málum. Þau höfðu forystu í París að miklu leyti, lögðu gríðarlega mikla vinnu í hana og sýndu ráðstefnunni mikinn stuðning. „Og það munar gríðarlega miklu um það að þarna eru Bandaríkin ekki með lengur og jafnvel að vinna gegn þessu.“ Hvaða líkur eru á því að það takist að ná þessum markmiðum sem stefnt er að, það er að setja reglur um hvernig á að framfylgja markmiðum loftslagssamningsins? „Ef við horfum á tölurnar þá eru líkurnar miklar. Ef við horfum á hina pólitísku dýnamík sem þarna er í gangi, þá vitum við það ekki. Vonandi tekst Evrópusambandinu, Kína, Indlandi, Suður-Ameríku og öðrum þjóðum að ná samkomulagi sem vegur upp á móti þessum Pútín og Trump og fleiri sem vilja eyðileggja þessa vinnu en það þurfa þá allir að leggjast á eitt.“
„Munið þið hafið!“
Árni segir að annað sem skiptir mjög miklu máli sé að fá umræðu um áhrif loftslagsbreytinga á hafið. Hafið bindi gríðarlega mikið magn af koltvísýringi og við það súrni sjórinn, hafið hitni og það verði súrefnisþurrð. „Við eigum svo mikið undir hafinu. Guðmundur Ingi Guðbrandsson þarf að öskra neðan af gólfinu, „munið þið hafið!“ Ísland verður að beita sér af miklum krafti til þess að fá inn meiri umræðu um hafið og hvernig samningurinn á að taka á því.“
Svört skýrsla vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna, IPCC, er mjög skýr. Árni segir að von sé á annarri skýrslu í september á næsta ári þar sem verður rætt um áhrif loftslagsbreytinga á hafið og sú skýrsla er mjög mikilvæg.
Andstæðir pólar — þróunarríkin og iðnríkin
Árni segir að ákveðin pólarisering hafi orðið á loftslagsráðstefnum síðan á ráðstefnunni í Rio de Janeiro í Brasilíu 1992. Þróunarríkin hafi úr mjög litlu fjármagni að spila en verði illa fyrir barðinu á loftslagsbreytingum. Því var ákveðið að hjálpa þeim og ríkari þjóðir heims samþykktu að greiða í sérstakan sjóð svo þróunarríkin gætu varist og aðlagast loftslagsbreytingum en líka svo þau gætu nýtt endurnýjanlega orku eins og sól og vind. Ekki er komið mikið fjármagn í sjóðinn. „Það skiptir gríðarlega miklu máli að Evrópusambandið og fleiri iðnríki komi inn strax og segi, við ætlum að bæta við núna strax. Það skiptir miklu máli að vinna traust þessara ríkja. Við viljum öll koma í veg fyrir hættulegar loftslagsbreytingar en það þarf líka að leggja á borðið það sem þeir lofuðu.“ Eftir þessa viku, hvaða líkur telur þú á því að árangur náist? „Það er erfitt að segja. Það getur svo margt gerst í pólitík á einni viku. En ég held að það náist árangur. Við vonum að hann verði nógu góður. Þetta eru mjög erfiðar aðstæður þegar Bandaríkin eru ekki bara út úr myndinni, eins og þegar Bush sagði Bandaríkin úr Kyoto bókuninni, heldur líka vinna mjög markvisst gegn því að árangur náist. Það er mjög erfitt.“