Niðurstöður úttektar embættis landlæknis um alvarlega stöðu bráðamóttöku Landspítala komu Guðbjörgu Pálsdóttur, formanni Félags hjúkrunarfræðinga, ekki á óvart. Sjálf er hún sérfræðingur í bráðahjúkrun og segir að það sem helst hafi breyst á undanförnum árum sé að álag á starfsfólk bráðamóttöku hafi aukist.

„Þetta eru ekki nýjar fréttir. Það er búið að vera að benda á þetta mjög lengi,“ sagði Guðbjörg í viðtali í Samfélaginu á Rás 1 í dag. Daglega séu reknar ein til tvær legudeildir á bráðamóttökunni þar sem ekki sé hægt að útskrifa fólk þaðan vegna plássleysis á öðrum deildum. Hún segir að margar rannsóknir sýni að þegar fólk hafi lokið meðferð á bráðamóttöku vegni því betur á legudeild en á bráðamóttöku, jafnvel þó að það þurfi að liggja frammi á gangi. „Þannig að þetta hefur líka áhrif á þeirra afkomu,“ segir hún. 

Dvalartími á bráðamóttöku lengri

Í skýrslu landlæknis, sem birt var í gær, segir að ekki sé hægt að uppfylla ýmis lagaákvæði umréttindi sjúklinga við núverandi aðstæður og að hvorki húsnæði né mönnun uppfylli reglugerð um faglegar lágmarkskröfur miðað við starfsemina sem þar fer fram. Helstu ástæður stöðunnar á bráðamóttökunni séu undirmönnun og skortur á hjúkrunarrýmum. Meðaldvalartími sjúklinga sem bíða eftir innlögn á aðrar deildir spítalans hafa lengst úr 16,6 tímum fyrir ári í 23,3 tíma nú. 

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, sagði í Kastljósi í gær að biðtími og fráflæðisvandi bráðamóttöku væri ekki vandi bráðamóttökunnar, heldur spítalinn sé einfaldlega fullur. Því þurfi fólk að bíða lengur eftir innlögn á deildir. Hann segir að vandinn sé lýðfræðilegur, fólk nái hærri aldri og fleiri ferðamenn leiti heilbrigðisþjónustu. Byggja þurfi fleiri hjúkrunarheimili og efla heimahjúkrun. Þá séu mun fleiri rúm lokuð í ár en áður þar sem bæði vanti sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga til starfa.

Hjúkrunarfræðingar vilja starfa við fagið

Víðar en á Landspítala er skortur á hjúkrunarfræðingum og hefur nokkur fjöldi þeirra valið að starfa frekar sem flugliðar. Uppsagnir hafa verið hjá flugfélaginu WOW Air að undanförnu. Ekki hefur þó enn orðið vart við að margir hjúkrunarfræðingar séu að snúa aftur í fagið, að sögn Guðbjargar. Hún segir þó að þegar hjúkrunarfræðingar velji annan starfsvettvang segist þeir yfirleitt ætla að koma aftur. Til þess að svo megi verða þurfi þó að bæta starfsaðstæður og launakjör. 

Mikil „yfirvinnumenning“ ríkjandi

Starfshlutfall hjúkrunarfræðinga hér á landi er um 70 til 80 prósent. Dæmi eru um að vaktir séu þrískiptar og segir Guðbjörg það valda miklu álagi. Í mörgum löndum sé 80 prósent vaktavinna talin vera fullt starf og að það fyrirkomulag þyrfti að skoða hér á landi. Þá sé einnig mikil „yfirvinnuómenning“ ríkjandi. Fólk geti híft launin upp með því að vinna yfirvinnu þegar því henti og þetta þurfi að leiðrétta með betri launum og starfsumhverfi þannig að fólk geti valið sér að vera í fullu starfi. Á Landspítala séu um 55 til 60 stöðugildi hjúkrunarfræðinga unnin í yfirvinnu. „Af hverju getum við ekki sett þetta inn í grunnlaunin og fengið þá sem fyrir eru til að auka við sig vinnuprósentu og fá mannsæmandi laun og þurfa ekki að reiða sig á yfirvinnuna?“ spyr Guðbjörg. 

Kjaraviðræður hjúkrunarfræðinga eru ekki hafnar en senn líður að þeim. Gerð hefur verið könnun um vilja hjúkrunarfræðinga og farið verður í hringferð um landið og málin rædd.