„Innan þessa risavaxna ramma sem skáldið smíðar um hin smæstu mál, er fjölmargt hugsað, sett fram í úthugsuðum myndum og jafnvel orðaleikjum sem kveikja samstundis á perum, einföldum, nánast sjálfsögðum, en aldrei áður sögðum.“ Gauti Kristmannsson rýnir í nýjustu ljóðabók Ísaks Harðarsonar, Ellefti snertur af yfirsýn.


Gauti Kristmannsson skrifar:

Ísak Harðarson hefur tekið sér tíma fyrir þessa elleftu ljóðabók sína, sú síðasta kom út fyrir níu árum. Við lesturinn verður hins vegar ljóst að þeim tíma hefur verið vel varið. Eins og flestar ljóðabækur er hún stutt og fljótlesin, en hún hefur að geyma krafta sem eru í öfugu hlutfalli við þá staðreynd. Hver lestur víkkar út sjóndeildarhringinn um leið og lesandinn stendur á strönd hinnar minnstu eyjar með ljóðmælanda sem alltaf virðist hafa fæturna á jörðinni án þess að skeyta um það á nokkurn hátt, því ævinlega er horft til hins stærsta frá hinu smæsta.

Þetta eru kosmísk ljóð, mörg hver, en um leið atómísk í bókstaflegri merkingu. Það felur í sér þversagnir sem upp koma aftur og aftur, en það er einmitt galdur þessara ljóða, og kannski allra góðra ljóða, að gera lesandanum kleift að sjá sig sjálfan í smæðinni og gera sér um leið ljósan óendanleika veraldarinnar. Að segja frá hvoru tveggja í sömu andrá og krossfesta í konkretljóði ósegjanleikann með því að yrða hann þannig að hann verður áþreifanlegur. Það er ekki öllum gefið að setja okkur í slíkt hugarástand og líkast til engum nema ljóðskáldum og það er einmitt það sem Ísak Harðarsyni tekst í þessari bók. Við getum tekið dæmi:

Jörðin er bláeyg,
augasteinn sólarinnar
– sjónfruma í auga hins síkveikta lífs
 

Horfir nývöknuð, ringluð
mót blikandi augum og brosum,
en sér aðeins stjörnur,
sindrandi þokumekki.

Grenjar og hikstar,
prumpar eldgosum,
heimtar að fá að drekka,
orgar enn meir ...

Sussu sussu, litla jörð.
Gleymdu þessu með Vetrarbrautina :
 

Freyðandi Sumarbrautin er þér ætluð,
stráð mjólkandi sólarspenum !

Persónugerving alheimsins í einu ungbarni gengur hér fullkomlega upp að mínu mati, við förum frá kosmískum stærðum sólkerfisins í barninu, jörðinni, og móðurinni, sólinni. Jörðin hagar sér eins og ungbarnið nýfædda og fær móttökur sem nýfædd börn fá, freyðandi Sumarbraut með „mjólkandi sólarspenum“. Vart er hægt að hugsa sér stærri myndir fyrir eitt lítið barn í vöggu sem horfir á móður sína og ættingja, orgar, og fær síðan móðurmjólkina sem í huga þess er áreiðanlega kosmískur lífskraftur.

Ljóðin í þessari bók hverfast sem sagt um alheiminn og smæð okkar í honum, en þau fara líka miklu víðar, þótt skáldið nýti sér þessa „þversögn“ ef svo skyldi kalla, því vitanlega er þetta engin þversögn, aðeins skilningur á því að stærð heimsins miðast við það smæsta, án þess að nokkuð sem kalla má það stærsta sé nokkru sinni skilgreinanlegt. Það er því ekki nein furða að trúarstef skjóti upp kolli, en þau eru oft hlaðin íroníu eða að minnsta kosti kímni eins og eftirfarandi ljóð vottar vel:

En Guð gaf mér auga !
 

„Mæltu heill,“ sagð‘ ann
þegar drengurinn uppgötvaði dauðann.
 

Eða var það : „Mældu heill,“
þegar heimurinn hrundi eins og spilaborg ?

Heimslitaþemað kemur hér fyrir og víðar í bókinni, sem og drengurinn, kannski stundum villuráfandi, þó ekki endilega, en hrunið er líka algjörlega jarðtengt eins og lesa má í síðasta erindi næsta ljóðs:

Og gott ef ekki : Bréf !
Bréf frá síðustu – já, svei mér þá,
allra síðustu dögum,
emjandi byggingarkrananna ...

Við förum frá heimsslitum til okkar jarðneska, manngerða hruns, er það til að minna okkur á að hrun jarðar er það líka? Skáldið svarar því ekki beint, en mér finnst það samt svara, eins og þau gera alltaf, þau knýja okkur bara til að hugsa það öðruvísi, því að í stagli rökréttra yrðinga visnar hugsunin og verður að trénaðri afstöðu sem fúnar og brotnar þegar raunverulegur næðingur veraldarinnar blæs hana niður.

Ljóðmælandinn gerir meira að segja alvarlega, góðlátlegt grín að okkar veraldarvafsturshruni; hann sveiflar okkur aftur og aftur frá stórum sannindunum til hinna lítilfjörlegri og ég verð að vitna aftur í bókina, hún segir það betur en ég:

Heimurinn er alltaf gjaldþrota.
Samt
stritaðist hann við að borga skuldirnar
í stað þess að umfaðma gnægðir lífsins.

Hér er ekki átt við gnægðir í neysluformi, heldur þvert á móti, skilji ég þetta rétt, og hér er enn eitt dæmið um stærðarmismuninn sem hugrenningar okkar þurfa að kljást við í örfáum orðum. Ljóðmælandinn reynir að svara þversögninni sem fram kemur í fyrstu línunum með retorískum spurningum:

Og hver stjórnaði honum svosem
þegar fólkið slappaði af og
Hagaði sér eins og krakkar ?
Tala ekki um á meðan það svaf ?
Hvísla ekki einu sinni, þegar það var dautt ?

Lesandinn getur hugsað allt frá Guði til kapítalismans og ljóðinu lýkur í því ljósi á kaldhæðinn hátt:

Verð að segja
að ég var virkilega farinn að efast
um bankakerfið ...

Innan þessa risavaxna ramma sem skáldið smíðar um hin smæstu mál, er fjölmargt hugsað, sett fram í úthugsuðum myndum og jafnvel orðaleikjum sem kveikja samstundis á perum, einföldum, nánast sjálfsögðum, en aldrei áður sögðum:

Það skyldi þó ekki vera
að síðustu misserin hafi maður ætlað sér
að nálgast kjarnann á vængjum
hismisins ?

Það skal viðurkennast að þessi lesandi mislas síðasta orðið í fyrstu sem himinsins í stað hismisins og fannst þetta þá ekkert sérstakt, vísast ýtti það þá sterkar við mér að átta mig á því hve listilega þetta var gert.

Það er því krítik og á stundum bölsýni að finna í þessum ljóðum, að minnsta kosti fyrir þá sem það vilja finna, en í anda þversagnarinnar einnig bjartsýni og trú á mannkynið og einhverja forsjá, og síðast en ekki síst á ljóðið sjálft. Samtímis má skemmta sér að vísunum skáldsins til jafn ólíkra skálda og Jónasar og Steins Steinarrs, finnst mér, samsetningar með gulum lit hugsanlega til beggja, en eitt ljóðið minnti mig sérstaklega á hinn síðarnefnda, án þess þó að það væri nokkurs konar hneiging eða út úr samfellu bókarinnar, þvert á móti, það heldur algjörlega við hrynjandi heildarinnar, en tekst einhvern veginn ýta við hugrenningum í þessa átt. Til skýringar þarf að nefna að fjallað er um flöskuskeyti í ljóðinu á undan:

Mannkynið er einmitt svona reki.
 

Og dag einn kemur lítill drengur
og spyr ósköp kurteis og lágmæltur :
„Getur nokkur verið að þið hafið
fundið mannkynið mitt hér ?“

Og þá teygir strandvörðurinn sig
í hilluna með óskilamununum
og sýnir honum það og spyr :
„Er það kannski þetta hérna ?“

Og þegar hann hoppar
upp yfir sig af fögnuði
þá vita þeir báðir að það er
einmitt þetta hérna !

Eitt þema er kannski beinlínis ónefnt í þessum orðum hér, en ætti að vera augljóst, en það er ástin og bókinni lýkur á prósaljóði sem kallast beinlínis „Ástarljóð til 33 A“. Það er of langt til vitna til hér, en er eins og önnur ljóð í þessari bók, sprúðlandi af þversagnakenndum myndum sem ganga sífellt upp eins og skáldið hafi yfirbugað rökfræðina endanlega. Það er vel, því það er okkar mannkyns stóra sérkenni, þversögnin.