Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar sprengdi stórt tundurdufl á Héraðssandi rétt fyrir hádegið. Í fyrra var fjórum duflum eytt á sandinum og var mikið sprengiefni í tveimur þeirra.
Bretar lögðu um 100 þúsund tundurdufl úti fyrir Austfjörðum í síðari heimstyrjöldinni og áttu þau að loka siglingaleið þýskra kafbáta út á Atlantshaf. Landhelgisgæslan hefur gert um 5.000 af þessum duflum óvirk og á árum áður var bændum kennt að gera dulf skaðlaus með því að brenna úr þeim sprengiefnið. Það heppnaðist ekki alltaf nógu vel og því má finna dufl með hálfbrunnið sprengiefni. Af duflunum fjórum sem fundust á sandinum í fyrra voru tvö með sprengiefni. Um hundrað kíló voru í öðru en um fimmtíu í hinu. Í fyrradag fannst svo enn eitt duflið á sandinum við ós Selfljóts og héldu tveir menn frá sprengjusveit Langhelgisgæslunnar út á sandinn í morgun.
„Þetta er fullt af sprengiefni, þetta eru 225 kíló af TNT sem samsvarar einu kílói af dínamíti. Og við erum að koma fyrir hleðslunni í það og sprengjum það eftir svona tíu mínútur. Það er hérna í fjöruborðinu en hefði ekki mátt bíða lengur því þá hefði það kannski horfið aftur en kannski komið seinna,“ sagði Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður sprengjusveitarinnar, við fréttastofu áður en duflið var sprengt.
Sprengjusveitin setti C4 plastsprengiefni inn í duflið og kom sér svo fyrir í eins kílómetra fjarlægð. Duflinu var gjöreytt í mikilli spengingu sem Sigurður segir að hafi skilið eftir sig pláss fyrir einn húsgrunn eða svo.
Hér má hlusta á útvarpsfrétt og viðtal við Sigurð Ásgrímsson.