Tímaþjófurinn er ekki auðveldasta skáldsaga til að setja á svið en vönduð leikgerð, góður leikur, úthugsuð leikmynd og hugvitssamleg notkun á dansi skila sér í spennandi og áhugaverðri leiksýningu, að mati gagnrýnenda Menningarinnar.

Tímaþjófurinn eftir Steinunni Sigurðardóttur kom út árið 1986 og hefur nú ratað í fyrsta sinn á svið í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í leikgerð Melkorku Teklu Ólafsdóttur og leikstjórn Unu Þorleifsdóttur.

Eyðileggjandi stjórnsemi

Sagan fjallar um hina glæsilegu og sjálfsöruggu Öldu Ívarsen, kennara við MR sem vefur karlmönnum um fingur sér en tengist engum fyrr en hún fellur fyrir Antoni, samkennara sínum. Þegar hann hafnar henni eftir stutt ástarsamband reynist henni ofviða að takast á við það. 

„Þetta er ekki bara saga um ástarsorg heldur líka stjórnsemi og hvernig hún getur eyðilagt líf,“ segir Snæbjörn Brynjarsson, sem sá verkið ásamt Hlín Agnarsdóttur. 

Vel heppnuð leikgerð

Þau eru sammála að leikgerð Melkorku Teklu sé vel heppnuð, ekki síst í ljósi þess að skáldsagan eigi sér fyrst og fremst stað í hugarheimi söguhetjunnar.

„Þetta er ekki aðgengileg saga að því leyti að það eru ekki mörg samtöl í henni,“ segir Hlín, „og eftir því sem á líður og þráhyggjan tekur yfir í lífi Öldu leysist textinn upp í ljóðmál. Mér finnst Melkorku hafa tekist vel að búa til handrit upp úr bók Steinunnar og það hefur verið gaman fyrir leikstjórann að líkamna þennan texta í samvinnu við leikmyndahönnuðinn, Evu Signýju Berger og danshöfundinn, Sveinbjörgu Þórhallsdóttur.“

„Þetta virkar,“ tekur Snæbjörn undir. „Oft er það þannig í íslensku leikhúsi að við veljum á svið mikil bókmenntaverk, sem henta kannski ekki sviðsetningu. Textinn er góður en það vantar framvinduna. En þetta heppnast vel af því þau virðast vera meðvituð um þessa veikleika.“ Leikmyndin er úthugsuð að hans mati, einföld en um leið margslungin og endurspeglar tilfinningalíf Öldu. 

Nína Dögg frábær

Þau hrósa líka Nínu Dögg Filippusdóttur í aðalhlutverkinu, Hlín segir þetta með því besta sem hún hafi séð til hennar.

 

„Ég var ekki nógu trúuð á hana í byrjun en hún vinnur mjög á í sýningunni og nær að túlka þessar mörgu hliðar á Öldu, íróníuna, kvikindisskapinn og þegar hín verður hugstola af sorg.“

Aðrir leikarar standi sig einnig vel. „Og einhvern verður þetta að einni skemmtilegri heild. Þeim tekst að skapa áhugaverða og spennandi leiksýningu af miklum listrænum gæðum.“