Jordan Peele, leikstjóri og handritshöfundur hrollvekjunnar Us hefur fest sig í sessi sem einn mikilvægasti kvikmyndahöfundur samtímans, segir gagnrýnandinn Marta Sigríður Pétursdóttir. „Peele tekst að gera frumlega hryllingsmynd sem er í raun handan við hryllingsmyndagreinina.“
Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:
Bandaríski leikstjórinn Jordan Peele hefur sent frá sér nýja hrollvekju, kvikmyndina Us sem er sýnd í Smárabíói og Háskólabíói um þessar mundir. Fyrsta kvikmynd Peele, hryllingsmyndin Get Out frá 2017, hlaut nær einróma lof gagnrýnenda og áhorfenda og olli í raun straumhvörfum innan hryllingsmyndagreinarinnar en hann beitir nýstárlegri nálgun á formið sem tæki til þess að miðla mikilvægri ádeilu á og innsýn í flókna kynþáttapólitík í Bandaríkjunum þar sem reynsla svartra Bandaríkjamanna er miðlæg. Hryllingurinn sem er ýjað að í myndunum báðum er mun djúpstæðari en bara blóðsúthellingarnar á hvíta tjaldinu. Með aðalhlutverk í Us fara Lupita Nyong’o, Winston Duke, Elisabeth Moss og Tim Heidecker.
Us gerist í kalifornísku strandborginni Santa Cruz og hefst árið 1986 þegar hin barnunga Adelaide fer með foreldrum sínum í skemmtigarð við ströndina. Hún verður viðskila við þau og villist inn í speglasal, þar sem hún hittir fyrir tvífara sinn, ekki spegilmynd heldur raunverulegan tvífara. Þarnæst er sögusviðið fært til samtímans og Adelaide, sem leikin er af Lupitu Nyong’o er á leið í sumarhús í Norður-Kaliforníu, ekki langt frá Santa Cruz, ásamt eiginmanni sínum og börnum. Hún er enn ásótt af minningum úr bernsku og þeim hryllingi sem hún varð fyrir þegar hún týndist í speglasalnum. Adelaide og fjölskylda eru velmegandi millistéttarfjölskylda, þau eiga hvíta vini sem þau hitta á ströndinni í Santa Cruz sem eru þó ennþá efnaðri. Allt frá þau koma í sumarhúsið er Adelaide óróleg, ótti hennar reynist á rökum reistur þegar ofsóknir á hendur fjölskyldunni hefjast, frá tvíförum þeirra sem birtast eitt kvöldið, íklædd rauðum samfestingum og virðast hafa það eitt að takmarki að útrýma þeim.
Þegar Adelaide spyr tvífara sinn, sem kallast Red, hver þau séu er svarið einfalt. „We’re Americans,“ svarar Red sem er sú eina, hinna tjóðruðu, eða „tethered“, sem getur tjáð sig á ensku, en áður er sonur Adelaide, Jason, búinn að segja „It’s us,“ eða þetta eru við. Adelaide og fjölskylda eru ekki þau einu sem eiga sér tvífara heldur virðist allt landið vera undirlagt af her eins konar uppvakninga í rauðum samfestingum, sem eru þó ekki uppvakningar heldur manneskjur af holdi og blóði sem hefur verið haldið neðanjarðar í grimmum og fátæklegum heimi sem er sorglegur skuggi af lífinu ofanjarðar. Það er erfitt að ætla að fara út í djúpa greiningu á Us án þess að spilla fyrir þeim áhorfendum sem ekki hafa séð myndina en það er óhætt að segja að það sé ansi magnþrunginn viðsnúningur á plottinu nálægt endi myndarinnar.
Peele tekst að gera frumlega hryllingsmynd sem er í raun handan við hryllingsmyndagreinina þrátt fyrir að myndin sé á yfirborðinu hefðbundin úthverfishryllingsmynd. Us er uppfull af ríkulegum vísunum í poppkúltúr og kvikmyndasöguna. Í grein nettímaritsins Vox eru taldar upp kvikmyndir sem veittu Peele innblástur við gerð Us, þeirra á meðal eru Persona eftir Ingmar Bergman, Funny Games eftir Michael Haneke og People Under the Stairs eftir Wes Craven. Það er líka óhætt að segja að þetta sé mynd sem fjalli um hið óhugnanlega og endurkomu hins bælda. Tvífarar, speglanir og speglar eru gegnumgangandi þema í myndinni, sem einnig vísar í Biblíuna en talan 11:11 kemur fyrir bæði á klukkum en líka á skilti strandarróna. Hið stóra gegnumgangadi þema er óttinn við hinn, sem reynist að sjálfsögðu vera við sjálf, einnig augljós vísun í hið pólaríseraða samfélag Bandaríkjanna, fyrr og síðar. Það er ekki hægt að túlka klæðnað tvífaranna og líf þeirra í fangelsi neðanjarðar sem annað en vísun í bandaríska fangelsisiðnaðinn. Speglasalurinn sem Adelaide gengur inn í er einnig einhvers konar póstmódernísk skrumskæling á menningu innfæddra í Bandaríkjunum sem bætir við enn einu laginu af jöðrun og öðrun í ofbeldisfullri sköpunarsögu Bandaríkjanna, sem hefur, eins og rasisminn, verið bæld og grafin djúpt í minni samfélagsins.
Hryllingurinn í Us er svo magnaður upp með tónlistinni í myndinni sem er samblanda af frumsaminni kvikmyndatónlist eftir Michael Abel og hiphopi og bandarískum dægurlögum. Hið sígilda hiphop-lag I Got 5 on It með Luniz gengur aftur og vekur nú óhugnað með áhorfendum og hlustendum, Good Vibrations með Beach Boys og Fuck Tha Police með N.W.A skapa mikilvæga umgjörð, reyndar fer síðarnefnda lagið í gang þegar snjalltæki er skipað að hringja á lögregluna sem er fjarverandi alla myndina, sem er engin tilviljun.
Frammistaða Lupitu Nyong’o í báðum hlutverkum sem Adelaide og Red í myndinni er vægast sagt eftirminnileg og hún túlkar af dýpt og samkennd báðar persónur sem eru flóknari en að vera bara tákn fyrir klassíska tvíhyggju hins illa og góða. Adelaide þarf á endanum að fara handan við blekkingu speglasalarins, elta kanínuna ofan í jörðina, svo hún geti horfst í augu við sannleikann og sjálfa sig.
Us, og titill myndarinnar getur bæði vísað í US (United States) eða „us“, við, er óvæginn spegill á bandarískt samfélag. Leikstjórinn Jordan Peele, sem klappaði einmitt ekki með vini sínum og samstarfsmanni Spike Lee þegar Green Book vann Óskarinn fyrir bestu myndina, hefur svo sannarlega fest sig í sessi sem einn mikilvægasti kvikmyndahöfundur samtímans með skýra rödd, sterk höfundareinkenni og djúpan skilning á poppkúltúr sem og blóðugri sögu Bandaríkjanna og bandarísks samfélags samtímans sem reikar um í speglasal hvítrar kynþáttahyggju, kynþáttafordóma, blekkingarheimi fjölmiðlanna, síðsannleikans og hins frumstæða ótta mannskepnunnar við sjálfa sig.