Grein almennra hegningarlaga um guðlast var numin úr lögum í dag. Því er ekki úr vegi að rifja lauslega upp tilvik þar sem reynt hefur á greinina.

Greinin var númer 125 og í henni stóð: Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.

Árið 1983 reyndi á greina þegar annað tölublað Spegilsins kom út í maí. Úlfar Þormóðsson var ritstjóri blaðsins. Sólarhring eftir að blaðið var prentað fór umfangsmikil lögregluaðgerð í gang til að koma í veg fyrir dreifingu blaðsins. Blaðið þótti innihalda klám, ærumeiðingar og guðlast.

„Það dugði ekkert minna til en mesta lögregluútkall lýðveldisins, þetta var svo hættulegt blað," segir Úlfar í viðtali við fréttablaðið liðlega aldarfjórðungi síðar.

Komið var í veg fyrir að blaðið færi í dreifingu og Úlfar var dreginn fyrir rétt vegna útgáfunnar. Hann var ákærður bæði fyrir guðlast og dreifingu kláms. Hæstiréttur dæmdi í málinu 1984 og var ritstjórinn dæmdur til að greiða sekt að upphæð 16.000 krónur eða sitja 20 daga í varðhaldi. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Úlfar hefði brotið bæði 210. gr. almennra hegningarlaga, sem snýr að klámi, og 125. greinina.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur umrætt tölublað Spegilsins enn ekki verið birt á vefnum Tímarit.is vegna dómsins.

Spaugstofan 1997
Spaugstofumenn rákust harkalega á 125. greinina vorið 1997, þegar páskaþáttur þeirra var sýndur í Ríkissjónvarpinu. Þar voru atriði sem fóru mjög fyrir brjóstið á hluta þjóðarinnar, meðal annars Ólafi Skúlasyni, biskupi yfir Íslandi á þeim tíma.

„Þáttur spaugstofumanna, Enn ein stöðin, varð umtalsefni í stólræðum nokkurra presta um páskana, meðal annars herra Ólafs Skúlasonar biskups, sem töldu þar guðlast á ferðinni," segir í frétt Morgunblaðsins af málinu þann 2. apríl 1997. Þar segir biskup „Þetta var hvorki fyndið né viðeigandi, og allra síst á þessum tíma, laugardag fyrir páska, að gera gys að kvöldmáltíðinni, þegar vitað er að fermingarbörnin eru að horfa."

Karl Ágúst Úlfsson, Spaugstofumaður, kemur einnig sinni skoðun á framfæri í blaðinu. Hann segist ánægður með að þjóðin hafi skoðun á páskaþætti Spaugstofunnar. „Við höfum ekki annað en gott af því að hver og einn skoði hug sinn í þessum málum og mín skoðun er sú að guð hafi húmor og fyrir mitt leyti er ég sáttur við þáttinn," sagði hann.

Ríkissaksóknari ákvað að taka málið til rannsóknar og kvaddi Spaugstofumenn til yfirheyrslu einn af öðrum. Rannsóknin tók hátt á fimmta mánuð en í ágúst árið 1997 ákvað Ríkissaksóknari að ákæra ekki vegna málsins.

Hér að ofan má sjá umdeildustu atriðin úr páskaþættinum. 

Heilagur papi
Árið 2010 kom 125. greinin fyrir í kærumáli hjá Umboðsmanni Alþingis. Þá hafði ÁTVR neitað að selja bjórinn Heilagan papa vegna þess að hann var talinn brjóta í bága við almennt velsæmi með skírskotun til trúarbragða.

Samkvæmt reglum um vöruval í ÁTVR var óheimilt að selja þess hátar varning. Fjármálaráðherra hafði sett reglurnar árið 2005.

Fyrirtækið sem vildi selja bjórinn kvartaði til Umboðsmanns sem innti ráðuneytið eftir réttlætingu á þessum reglum. Þá nefndi ráðuneytið meðal annars að 125. gr. almennra hegningarlaga um guðlast kæmi til skoðunar í málinu.

Niðurstaða Umboðsmanns Alþingis var sú að hvorki væri heimild fyrir því að banna sölu bjórsins í vínbúðum ÁTVR, né heldur að hafa það í vöruvalsreglum yfir höfuð að takmarka sölu víntegunda við vörur sem ekki brytu gegn almennu velsæmi með skírskotun til trúarbragða.

Rétt er að taka fram að umfjöllunin í þessari frétt er ekki tæmandi.