Sósíalistar undir stjórn forsætisráðherrans Pedro Sanchez unnu stórsigur í þingkosningunum á Spáni í gær en Lýðflokkurinnn galt sögulegt afhroð. Þjóðernispopúlistaflokkurinn VOX fékk rúm tíu prósent en þeir berjast gegn innflytjendum, femínisma og aðskilnaðarsinnum. Það stefnir allt í fyrstu samsteypustjórnina í sögu lýðveldisins.

Forsætisráðherrann Pedro Sanchez ávarpar stuðningsmenn sína og segir að Sósíalistar séu sigurvegarar kosninganna. Það þýði að framtíðin hafi unnið en fortíðin tapað. Flokkurinn fékk tuttugu og níu prósent atkvæða en var með tuttugu og þrjú prósent árið 2016. Sósíalistar verða langstærsti flokkurinn á þingi með 123 þingmenn af 350. Þingmönnum flokksins fjölgar um þrjátíu og átta frá síðustu kosningum. Þetta dugir þó ekki til meirihluta og talið er fullvíst að mynduð verði samsteypustjórn í fyrsta skipti í sögu Spánar. Líklegast er að forsætisráðherrann leyti eftir samstarfi við Unidas Podemos sem fékk rúm fjórtán prósent atkvæða. Podemos þýðir Við getum. Þetta er popúlistaflokkur til vinstri sem var stofnaður 2014 og berst gegn spillingu og ójöfnuði. Leiðtogi þeirra Pablo Iglesias sagði að þótt flokkurinn hefði tapað 29 þingsætum hefði ætlunarverkið tekist, að stöðva sókn hægriflokka og tryggja samsteypustjórn til vinstri. Talið er líklegt að þessir tveir flokkar nái saman en það dugar þó ekki til. Flokkarnir þurfa ellefu þingmenn til viðbótar til að ná 176 þingmönnum. Þeir verða því að tryggja sér stuðning einhverra svæðisbundinna smáflokka og aðskilnaðarsinna, annað hvort Baska eða Katalóníu. Reyndar er niðurstaðan í Katalóníu merkileg. Þar tapar aðskilnaðarflokkur Carles Puigdemont stórt en vinstri sinnaðir aðskilnaðarsinnar bæta verulega við sig.

Forsætisráðherrann Pedro Sanchez hefur annan möguleika en nokkuð fjarlægan. Það er að mynda stjórn með Borgaraflokknum undir stjórn Alberts Rivera sem bætti verulega við sig og hlaut sextán prósent atkvæða. Borgaraflokkurinn er miðhægri flokkur, eins konar krataflokkur. Albert Rivera sagði stuðningsmönnum sínum að hann hefði bæði góðar fréttir og slæmar. Slæmu fréttirnar væru þær að Sósíalistar og Podemos væru að fara að stjórna landinu með aðskilnaðarsinnum í Katalóníu en Rivera og Borgaraflokkur hans er mjög ansnúinn aðskilnaðarsinnum. Góðu fréttirnar væru þær að flokkurinn hefði fengið áttatíu prósentum meira fylgi nú en árið 2016. Samstarf við Borgaraflokkinn nýtur ekki mikils stuðnings meðal Sósíalista. Hér hrópa þeir Ekkert samstarf fyrir Borgaraflokkinn og Rivera og forsætisráðherrann svarar því að skilaboðin séu alveg skýr.

Á hægri vængnum eru breytingarnar umtalsverðar. Lýðflokkurinn á rætur allt aftur í falangista á tímum Francos og er hinn hefðbundni valdaflokkur til hægri. Hann galt algjört afhroð í kosningunum í gær, tapaði sjötíu og einu þingsæti og fékk innan við sautján prósent atkvæða. Það er versta niðurstaða í sögu flokksins. Forsíður stóru blaðanna, El Pais og El Munda fjalla báðar um sögulegan ósigur Lýðflokksins.

Stóri sigurvegarinn á hægri vængnum er Santiago Abascal og þjóðernisinnaður populistaflokkur hans Vox. Flokkurinn fékk núll komma tvö prósent í síðustu kosningum en fékk nú yfir tíu prósent atkvæða. Vox er því fyrsti flokkurinn á ysta hægri væng stjórnmálanna til að hljóta meira en eitt þingsæti frá því að lýðræðið var endurreist á Spáni eftir fráfall einræðisherrans Francos árið 1975. Formaðurinn segir að þessi stórsigur sé bara upphafið að öðru og meira. Markmiðið sé að endurheimta eða hertaka landið. Nú sé flokkurinn kominn með öfluga rödd á þingi. Flokkurinn sé kominn til að vera. Santiago Abascal er tíðrætt um reconquest eða endurheimt Spánar. Það er augljós tilvísun í baráttuna gegn Márum sem lauk með fullnaðarsigri 1492 og brottvísun allra gyðinga úr landi. Flokkurinn er með mjög harða stefnu i innflytjendamálum og ekki síður gegn sjálfstæðissinnum. Þeir vilja hreinlega banna alla flokka sem stefna að sjálfstæði. Þeir eru harðir gegn femínistum og tala gjarnan um femínasista í því sambandi. Pólitísk rétthugsun er að sama skapi eitur í þeirra beinum.

Sjálfstæðistilburðir Katalóna hafa gegnt lykilhlutverki í spænskum stjórnmálum að undanförnu. Spánski fáninn fór að blakta á svölum annars staðar á Spáni og þjóðerniskennd fór vaxandi. Lýðflokkurinn þótti höndla það mál illa og það á stóran þátt í fylgistapi hans. Hófsamari kjósendur þeirra hölluðu sér að Borgaraflokknum en hinir íhaldssamari að Vox. Pablo Casado, formaður Lýðflokksins brást við þessu fylgistapi með því að færa áherslur flokksins langt til hægri. Það féll ekki í frjóan jarðveg meðal hefðbundinna stuðningsmanna á miðjunni. Formaðurinn sagði fyrir kosningar að hann myndi ekki víkja þótt kosningarnar færu illa en talið er fullvíst að hann eigi ekki sjö dagana sæla framundan. 

Lýðræðið er kannski sigurvegari kosninganna. Þrátt fyrir að Spánverjar hafi verið að kjósa til þings í þriðja skipti á innan við fjórum árum, jókst kjörsókn um níu prósent og var 76 prósent í kosningunum í gær.