Á Borgarbókasafninu er að finna veglegt safn af hinsegin bókmenntum sem nú hefur verið stillt sérstaklega upp í Aðalsafninu í tilefni Hinsegin daga.

Upphaf hinsegindeildarinnar má rekja til þess þegar að Borgarbókasafnið fékk bókasafn Samtakanna 78 að gjöf þegar þau höfðu ekki lengur pláss fyrir það vegna flutninga. „Síðan hafa verið dálítið slagsmál hvar þessar bækur eiga að vera, eiga þær að vera með öðrum bókum sem við gætum kallað „svona“ bækur – fyrst að hinar eru hinsegin,“ segir Úlfhildur Dagsdóttir bókavörður. „En enn sem komið er erum við með sérdeild fyrir þær,“ bætir hún við. 

En er hægt að skilgreina hinsegin bækur? „Já og nei,“ segir Úlfhildur. Það sem aðgreini þær frá öðrum bókum sé að nærvera hinsegin fólks sé sýnilegri en annars. Úlfhildur hafi hins vegar oft lesið bækur sem henni hafi líkað við en ekki fattað að þær væru hinsegin. „Ég las William Borroughs upp til agna í kringum tvítugt og var svo gjörsamlega undrandi þegar ég fattaði það nokkrum árum síðar að hann væri gay og þetta væru frægar hommabækur. Jú, þegar ég fór að hugsa um það var mikið um náin samskipti karla en ég hafði bara ekkert velt því fyrir mér.“

Úlfhildur segir að lengst af hafi verið talað um samkynhneigð undir rós í bókmenntum en á síðustu 20–30 árum hafi samkynhneigð orðið augljósari, bæði sem viðfangsefni og sem hluti af landslaginu. Úlfhildur nefnir sérstaklega að í glæpasögum sé samkynhneigð bara mjög eðlilegur hlutur. „Í mörgum hinsegin bókum er rosa sjálfsmyndarkrísa, hver er ég, hvers kyns er ég, hvað höfðar til mín? En í glæpasögum er það bara sjálfsagður hluti.“ Hún mælir sérstaklega með höfundunum Val McDermid og Angelu Marsons og kann vel að meta þegar ekki er gert mikið mál úr kynhneigð í bókmenntum. „Til dæmis fatta ég allt í einu þegar ég er að gera þessa útstillingu að megnið af myndasögunum sem hef lesið nýlega er með hinsegin þemu, ég hafði bara ekkert tekið eftir því það var svo eðlilegur hlutur af öllu.“

Í sumum bókaflokkum virðast þó samkynhneigðar persónur ekki þykja viðeigandi. Það á til að mynda við njósnaþrillerinn Svíann eftir Robert Karjel en aðalpersóna hennar er samkynhneigður. Útgefandinn Karjel lagði hart að honum að endurskrifa persónuna sem hann neitaði og lesendur kvörtuðu margir þegar bókin kom og sögðust hafa viljað vera varaðir við því að aðalnjósnarinn væri samkynhneigður. Úlfhildur telur þetta einkennilegt viðhorf til bókmennta. „Það væri gott að fá viðvörun við ýmsu, til dæmis ef aðalpersónan væri karlremba eða í bókinni væru einfaldar kvenímyndir. En það er sorglegt að fólk sé hrætt við að uppgötva að heimurinn sé ekki alveg eins og það heldur og óski þess vegna eftir því að fá viðvaranir á bækur. Þetta hlýtur að vera voðalegt fyrir fólk að lifa þannig,“ segir Úlfhildur og bætir við að Borgarbókasafnið lumi á tveimur eintökum af Svíanum vegna þess að bæði hinsegindeildin og glæpasagnadeildin hafi viljað hana í sínum hillum.

Björg Magnúsdóttir tók viðtal við Úlfhildi Dagsdóttur um hinsegin bókmenntir fyrir Síðdegisútvarpið.