Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar og prófessor við Háskóla Íslands gaf út bókina Skiptidaga í byrjun september. Bókin er persónulegt ferðalag Guðrúnar um Íslandssöguna og bókmenntir fyrri alda til okkar daga.
Hvaða lærdóm getum við dregið af frásögnum aldanna um okkur sjálf og hvernig getum við miðlað þeim frásögnum á nýrri öld, spyr höfundurinn Guðrún Nordal í Skiptidögum en þar leggur hún áherslu á sögur kvenna á öllum tímum og sækir samanburð til nútímans til að sýna að sagan er ein og allt tengist. Nýjar kynslóðir horfa inn í framtíð sem verður gjörólík okkar samtíma. Hvaða nesti – minningar, sögur og reynslu – taka þær með sér úr sagnasjóði fortíðarinnar?
Guðrún segist skrifa bókina til kynslóðar dóttur sinnar, þeirrar sem fæddist upp úr aldamótunum síðustu, „Ég er að skrifa þetta inn í þessa tíma sem við lifum í dag, eins og ég held að margir skynji. Við upplifum svolítið mikið breytingarskeið á öllum sviðum. Samfélagið er að breytast, tímarnir breytast. Tæknin er að breyta okkar lífi og við áttum okkur á því að við erum að fara inná nýtt skeið. Þá förum við að hugsa hvernig við getum talað um þessa nýju tíma með hliðsjón að okkar eigin sögu. Er eitthvað í okkar sögu sem hjálpar okkur að skilja okkar tíma og hvernig við förum með þetta allt saman inn í framtíðina? Þannig að ég hugsa til þessarar kynslóðar, hvernig mun hún fara með sögu okkar, sameiginlega sögu okkar sem búum á þessari eyju, inn í þessa framtíð.“
Hvar leitar Guðrún fanga og um hvað er bókin? spyr Egill. „Bókin er einhvers konar hugmynd um Ísland. Ég byrja á því að tala um landnámið og þær goðsögur sem við segjum að upphafinu. Hvernig við skilgreinum okkur sjálf. Hvernig sögur höfum við sagt af okkur sjálfum í gegnum tíðina? Við höfum kannski einfaldað okkur sögu mikið. Við höfum sagt dálítið upphafna sögu af okkur sjálfum, kannski til að lifa af og til að byggja upp sjálfstæði í okkar sjálfstæðisbaráttu þá verður þessi söguskýring ofan á. Mér fannst mikilvægt að byrja á upphafinu, hvernig við komum að okkar landi og hvernig við búum okkar sögu til. Allar sögur eru tilbúningur. Ég er hér að brýna okkur til þess að segja allar sögurnar af okkur sjálfum og þá sögurnar af okkur í nútímanum."