„Þetta er margfalt stærri bók en hún lítur út fyrir að vera og ágeng eftir því. Allt sem þögnin leynir brýst fram í meitluðum, viðkvæmnislegum stíl,“ segir Steinunn Inga Óttarsdóttir, bókmenntagagnrýnandi Víðsjár, um bókina Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström Knausgård sem nýlega kom út í þýðingu Þórdísar Gísladóttur.


Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar:

Stundum eru skáldsögur ágengar og djúpar í einfaldleika sínum, stórar í smæð sinni, fáorðar um svo margt. Líkt og þríleikur hins norska Jon Fosse (2016) sem lýsir sögu kynslóða í Noregi á fyrri öldum með svo knöppum stíl að það er undravert; svo sannarlega efniviður í óralanga sjónvarpsþáttaröð eða 3ja tíma dramatíska bíómynd. Sænski rithöfundurinn Linda Boström Knausgård (f. 1972) er einnig spör á stóru orðin þegar hún lýsir geðveiki og örvæntingu brotinnar fjölskyldu á 95 blaðsíðum í glænýrri bók sem ber þann vongóða titil, Velkomin til Ameríku.

Á bókarkápu er svarthvít sjálfsmynd af stúlku sem heldur á einhverju, kannski fornri selfie-stöng (því ljósmyndarinn dó 1981). Stúlkan horfir ekki í myndavélina, hún lítur undan og hárið hylur andlit hennar. Myndin er ekki í fókus og öll frekar óskýr og drungaleg sem slær svo sannarlega tóninn fyrir stemninguna sem koma skal.

Sögumaðurinn er ellefu ára stúlka en skynjun hennar á heiminum er fullorðinsleg og uggvekjandi, hún er einmana og öryggislaust barn sem  heldur fast í myrkrið (32), með eilífan kvíðahnút í maganum og óskar þess að deyja, hún sér enga aðra útleið. Hún hefur þolað margs konar ofbeldi og niðurlægingu á sinni stuttu ævi; orðið fyrir geðveiku stjórnleysi föður síns og beygt sig undir líkamlegt og andlegt ofbeldi bróður síns sem situr um að kvelja hana. Hún heitir Ellen og hún hugsar með sér - en segir það ekki upphátt: „Það er ekki auðvelt að alast upp“ (82).

Því segir hún það ekki upphátt? Tja, Ellen lumar nefnilega á aðferð til að lifa af í hörðum heimi. Það er þögnin, hún hefur ekki mælt orð frá vörum í langan tíma. „Ég hætti að tala þegar ég byrjaði af vaxa of hratt. Ég var viss um að ég gæti ekki bæði talað og vaxið“ (6). Hún hefur rekið sig á að tungumálið er lika hvort sem er fullt af lygum. Hún vill heldur ekki skemma þá glansmynd sem hampað er af fjölskyldulífinu né afhjúpa léttinn innra með sér; hún óskaði þess svo heitt að pabbi dæi og óskin rættist.

Á heimili Ellenar eru tæplega nokkur samskipti milli móður og barna, þar er eilíf valdabarátta: „Kannski fannst bróður mínum að ég réði, og mér fannst það vera hann og mamma hélt að það væri hún, þó að í raun vissi hún það ekki. Það var eins og friðsældin, sem ég upplifði stundum heima, orsakaðist af því að þar væri fínriðið net af skilningi og góðvild, að enginn braut gegn óskrifuðu reglunum. Allir urðu að leggja sitt af mörkum, annars brysti allt“ (92). Ellen hefur mikla þörf fyrir að hafa stjórn á öllu: á hvatvísinni, hugsunum sínum, vexti líkamans; að endurraða húsgögnunum í litla heiminum sínum, teygja á þráðum öryggisnetsins með þrjóskunni (92) og reyna þannig að halda fjölskyldunni saman.

Bróðirinn er alltaf með lúkurnar á lofti, lokar sig heiftúðugur inni í herberginu sínu og hefur neglt dyrnar aftur. Mamman er heillandi leikkona, valdamikil með gleði sína og styrk, „það er bjart yfir fjölskyldunni okkar“ (10), segir hún í tíma og ótíma, í einhverri undarlegri afneitun eða til að verjast myrkrinu sem ásækir þau öll, en þegar hún bugast og grætur eftir skapofsaköstin fellur heimurinn saman (16). Kannski er hún alltaf að leika leikrit á sviði (95) þar sem pabba er ekki hleypt inn til að trufla sýninguna. Ellen elskar og dáir mömmu sína og lítur á hana sem náttúruafl og frelsara þrátt fyrir að hún sé augljóslega djúpt sokkin í sjálfsblekkingu, jafnvel sjálfhverfu. Pabbinn var drykkfelldur og geðveikur, þrúgaði allt heimilislífið og heldur því áfram eftir skilnað og dauða, hann birtist í herbergi Ellenar, horfir á hana sofa, treður sér inn í líf hennar. Sjálf segist Ellen vera ljúflynd og góð stelpa, hún heldur dauðahaldi í minningar um útivist, veiðiferðir og hamingjuríka barnæsku áður en ógæfan dundi yfir, og hún býr yfir  djúpri bókstafslegri barnatrú. En hún hefur tekið á sig ábyrgð á velferð annarra, axlað sorg þeirra og geðveiki. Með því að velja þögnina ver hún sig, þá er færra sem þarf að taka ábyrgð á, færra sem þarf að hafa stjórn á en afleiðingarnar eru yfirþyrmandi einsemd og skömm. „Það er bjart yfir fjölskyldunni okkar...“

Ellen hefur ákveðið að þegja en hvorki mamman né bróðirinn nýta sér tungumálið heldur. Þögnin hentar fjölskyldunni ágætlega, þannig kemst hún af. „Þögnin í kringum mig óx og varð líka að þeirra þögn. Mamma talaði enn við mig en hún gerði ekki ráð fyrir að fá svar. Ég held það hefði hrætt hana ef ég hefði skyndilega sagt eitthvað. Það er líkt og allar aðstæður leiti jafnvægis. Þegar við rekumst hvert á annað við ísskápinn, er hver einasta stund eins og eitthvað sem þarf að jafna út með einhverju öðru. Að búa saman var kannski einmitt þetta. Að færa jafnvægispunktinn til þar til allir væru sáttir. Margar leiðir voru mögulegar. Eitt var ekki verra en annað“ (30).

Í tungumálinu felst menning, vald, sjálfsmynd, gildismat, kennisetningar, kerfi, karlveldi, kúgun og útilokun svo eitthvað sé nefnt og það er merkingarþrungin ákvörðun að snúa við því baki. Svo sannarlega er það áskorun fyrir rithöfund að lýsa því með sjónarhorni persónu á mörkum bernsku og unglingsára og fjalla um trámatíska reynslu og uppeldi sem mótar og herðir, þroskar í besta falli eða eyðileggur til frambúðar, án þess að verkið verði klénn sálfræðiþriller eða hvunndagsleg vandamálasaga. Það tekst í þessari meitluðu bók. Að alast upp við aðstæður Ellenar er ekki boðlegt en viðgengst samt alltof oft víða í skeytingarleysi og sjálfhverfu vorra tíma. Ef nefna ætti höfund sem hefur helst verið á þessum slóðum í íslenskum bókmenntum koma Vigdís Grímsdóttir og Auður Jónsdóttir fyrst upp í hugann en í sögum þeirra má sjá álíka örvæntingarfullar tilraunir barna til að lifa af og halda heimi fjölskyldu sinnar saman.

Harmsaga pabbans, geðveiki hans og dauði, er undiraldan í sögunni. Sjálf þekkir Linda Boström Knausgard andleg veikindi enda hefur hún glímt við þau  sjálf, sem frægt er orðið. Bók Lindu er sjálfsævisöguleg að hluta, sjálf valdi hún þögnina á tímabili í eigin uppvexti og átti í býsna flóknu sambandi við móður sína.

Bókin kom út seint á síðasta ári í Svíþjóð, var þýdd snarlega á flest Norðurlandamálin og er nú komin út, í aprílmánuði hinum grimma, í glóðvolgri, íslenskri útgáfu. Það er vert að lofa metnaðarfullt og lofsvert framtak íslenskra  bókaútgefenda sem leggja kapp á að vera tímanlega með það nýjasta í bókmenntum í öndvegisþýðingum. Þýðing Þórdísar Gísladóttur úr frummálinu er fullkomlega tær og myndrík og lýsir spennu milli þroskaðrar sögumannsraddar og sjónarhorns ellefu ára barns. Orðalag Ellenar er víða fullorðinslegt, mér fannst til dæmis gaman að sjá hana nota orðið „heybrók“ um „feg jävel“ (48). „Tystnad“ á sænsku er þögn á íslensku, mikið er nú íslenskan falleg.

Velkomin til Ameríku vísar allkaldhæðnislega til fyrirheitna landsins, lands tækifæra og frelsis og tengist þeirri ímynd sem móðirin býr til af fjölskyldulífinu. Þetta er margfalt stærri bók en hún lítur út fyrir að vera og ágeng eftir því. Allt sem þögnin leynir brýst fram í meitluðum, viðkvæmnislegum stíl sem er fullur af átakanlegu trúnaðartrausti og von um betri daga:

„Það er bjart yfir fjölskyldunni okkar...“

 

Við heyrðum Göran Engdal plokka gítarstrengi og hljómsveitina Knife taka lögin The Silent Shout og Heartbeats. Í lokin ómaði Dýrð í dauðaþögn eftir Ásgeir Trausta.