Máni Þórðarson, kokkur, og Arnrún Bergljótardóttir, starfsmaður NPA mistöðvarinnar, greindu frá upplifun sinni af þunglyndi og sjálfsvígshugsunum í sérstökum Kastljós-þætti í kvöld sem tileinkaður var geðheilbrigðismálum. Máni varð fyrir miklu áfalli sem ungur drengur þegar hann varð vitni að snjósleðaslysi móður sinnar en Arnrún sagðist eiginlega hafa verið í afneitun með eigið þunglyndi.

Máni og Arnrún lýstu reynslu sinni af geðheilbrigðiskerfinu. Máni sagðist hafa orðið þunglyndur eftir að hafa orðið fyrir áfalli í æsku þegar hann varð vitni að snjósleðaslysi móður sinnar.

Hún hefði slasast mjög illa og sjálf glímt við þunglyndi. „Og ég fer í þennan leik að kasta mér á milli meðferðarheimila og leitinni „hvað er að mér.“,“ sagði Máni.  Hann hafi verið sendur út í sveit og svo loks endað á Stuðlum. Þar hafi hann komist í kynni við sex krakka sem hann lýsti sem mjög góðum eiturlyfjafíklum. 

Máni reyndi að svipta sig lífi og lýst því þannig að maður væri eiginlega bara búinn að gefast upp á á sjálfum sér. „Ég fann enga leið út úr þunglyndinu. Maður grét í svefn og leið ömurlega alla daga.“ Hann segir það hafa orðið honum til happs að yfirmaðurinn hans hafði mikla áhyggjur af honum „og hann eiginlega hjálpaði mér mjög mikið.“

Arnrún sagðist ekki hafa fengið neina fræðslu um þunglyndi nema bara það sem hún sá úr kvikmyndum. Hún hefði því reynt að fela veikindi sín mikið og gert í raun allt öfugt við það sem hún hefði lært um sjúkdóminn. „Ég held að ég hafi verið í afneitun með þunglyndið mitt. “ Hún sagðist hafa orðið mjög manísk með sjálfsvígshugsanir og hafi meðal annars keyrt austur fyrir fjall eftir að hafa leitað á netinu eftir brúm á Íslandi. Þá hafi hún áttað sig á því að þetta væru bara ranghugmyndir hjá henni. 

Ef þú átt í erfiðleikum eða líður illa er hjálparsími Rauða krossins 17 17 opinn allan sólarhringinn. Þá má líka benda á Pieta-samtökin sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða.