„Okkur vantaði bara einhvern vettvang fyrir tilraunastarfsemi, einhvers konar grasrótarstemningu þannig við leituðum að rýmum og fundum þetta frábæra rými,“ segir Adolf Smári Unnarsson rithöfundur, listamaður og einn skipuleggjenda Safefest sviðslistahátíðarinnar sem stendur fram á sunnudag.
Hátíðin fer fram í Núllinu í Bankastræti. Dagskráin samanstendur af fjölbreyttum sviðslistaverkum, þar á meðal gjörningum, flautukór, markaði og sviðsrannsókn.
Að sögn skipuleggjenda er áhersla lögð á nýsköpun og öryggi. Þá verður menning fortíðar rifjuð upp. „Hljómsveitin 3 á palli verður endurvakin, hún lagði upp laupa árið 1979 og snýr nú hingað aftur. Þannig að það verður margt að gerast á víðsjárverðum tímum,“ segir Adolf Smári.
Auk hans eru skipuleggjendur og þátttakendur hátíðarinnar Aron Martin Ásgerðarson, Birnir Jón Sigurðsson, Helgi Grímur Hermannsson, Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir og Snæfríður Sól Gunnarsdóttir, en þau eru öll útskrifuð af Sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands.
Spennt fyrir skorðunum
Verk Snæfríðar Sólar á hátíðinni nefnist Laugardagstilboð. Að hennar sögn verður margt um að vera þá daga sem hátíðin stendur yfir. „Á föstudeginum frumsýnum við verk sem við sömdum öll saman og svo verður gjörningadagskrá á laugardeginum. Það verða innsetningar, krakkar gefa ráð og maður dettur á 20 mínútum.“
Aðspurður segist Adolf Smári smæð rýmisins bjóða upp á ýmsa möguleika. „Já, við erum eiginlega dálítið spennt fyrir þessum skorðum og við erum líka að ögra sjálfum okkur og kannski gestum og gangandi – hvað er leikhús? Leikhús getur verið hvað sem er.“ Og Snæfríður Sól bætir við: „Já, leikhús er ekki bara stóra sviðið, það getur leynst víðar.“
Nánari upplýsingar um hátíðina má finna hér.