„Þjóðleikhúsið hefur lagt metnað í að vinna eins vel og á verður kosið til að gera áhorfendur virka þáttakendur í framvindunni með rafrænni tækni,“ segir María Kristjánsdóttir gagnrýnandi um Þitt eigið leikrit – goðsaga, sem er nýstárlegt leikverk á sviði Þjóðleikhússins eftir Ævar Þór Benediktsson. Þó hefði hún viljað sjá stærri hvörf á sviðinu sjálfu.
Ævar Þór Benediktsson er ein af hetjum grunnskólabarna gegnum bækur sínar, upplestra og einnig sjónvarpsþætti um vísindi á Ríkissjónvarpinu sem ég horfi reyndar oft á mér til ánægju. Hann beitir í verkinu „Þitt eigið leikrit – goðsaga“, sama bragði og hann hefur áður notað á bók, að leyfa áhorfendum að velja hvernig verkið þróast. Goðsaga er undirtitillinn en persónur verksins sækja flestar nöfn sín til norrænna goða þar eru til dæmis Loki Laufeyjarson, kýrin Angurboða, Hel, Miðgarðsormurinn, Fenrisúlfur og Urður . En ef undan er skilin smáútskýring á Miðgarði, Miðgarðsbörnum og Ásgarði og skemmtilegrar sýningar í forstofu þá er nálgunin við Goðheima ekki beint vísindaleg heldur í takt við tækni og menningu samfélags okkar. Loki Laufeyjarson leikinn af Snorra Engilbertssyni og hægri hönd hans Einar leikinn af Hilmar Jenssyni hefja leikinn með því að koma á beinu sambandi við áhorfendur og setja þá inní leikreglur verksins. Eða réttara sagt hvernig við getum stýrt framvindunni með aðstoð fjarstýringar sem liggur í hverju og einu sæti. Loki segist hafa tælt þrjá einstaklinga til að taka þátt í því sem hann kallaði „Lokasvar“ skemmtilegum sjónvarpsþætti þar sem keppt væri til verðlauna og sá sem ynni fengi veglegan bikar eins og í Útsvari. Sannleikurinn sé hins vegar sá, trúði hann okkur fyrir, að það sé enginn bikar, engin verðlaun og þau geti jafnvel lent í hræðilegum hlutum. Hann ætli að nota þau til ákveðins verks. Svo erum við beðin að velja aðalpersónu sýningar. Og við völdum Urði sem Sólveig Arnarsdóttir leikur. Loki kynnir hana fyrir börnum sínum þremur þeim Hel sem leikin er af Láru Jóhönnu Jónsdóttur og skrýmslabrúðunum Fenrisúlfi og og Miðgarðsormi og allt í einu stendur Urður uppi með þessa undarlegu grislinga og á að fóstra þau og verja í myrkum heimi og fyrir sjálfum Óðni og Þór. Við völdum allar leiðir sem hún fór og gátum verið sátt við hvernig hún réð við þær þó heldur væri hlutur æsa þunnur í roðinu og endirinn á verkinu snubbóttur og kem ég að því síðar.
Samstarf leikstjórans Stefáns Halls Stefánssonar við leikarana er með miklum ágætum og ætla ég ekki að tíunda hlut hvers og eins, enda á þess ekki að þurfa í sjálfu Þjóðleikhúsinu, nema ærin ástæða sé til. Leikmynd Högna Sigurþórssonar er að sjálfsögðu einföld , rýmið gefur ekki kost á öðru. En með leikmunum sem koma á óvart, lýsingu Magnúsar Arnar Sigurðarsonar, hljóðmynd Elvars Geirs Sævarssonar og Kristins Gauta Einarssonar, ýmsum búningum Ásdísar Guðnýjar Guðmundsdóttur skapast ógn og töfrar í Goðheimum. Að það skuli takast ásamt því að skila flókinni tækninni í sviðsmyndinni er lofsvert. Þá eiga frumlegar brúður Aldísar Davíðsdóttur, Fenrisúlfurinn og Miðgarðsormurinn mikinn þátt í því að lífga upp á myndina og leikinn sjálfan.
Þjóðleikhúsið hefur lagt metnað í að vinna eins vel og á verður kosið til að gera áhorfendur virka þáttakendur í framvindunni með rafrænni tækni hannaðri af Hermanni Karli Björnssyni. Það ku vera í fyrsta sinni í leikhúsi í heiminum að þeirri tækni er beitt. Hún virkaði vel á frumsýningu, þó ég hefði viljað sjá stærri hvörf á sviðinu sjálfu eftir hvert val. Áhorfendur hefðu skynjað í botn að þeir hefðu lagt verulega af mörkum til sýningarinnar.
Auðvitað er það heillandi fyrir leikhúsið að bregðast við breyttum heimi tækni og myndsýnar sem yngsta kynslóðin lifir í og leikhópurinn hefur unnið áhugavert starf í þá veru. En þegar lokaþáttur Urðar sem barnfóstru er lýst með myndasjói sem áhorfandi stendur utan við en ekki meðölum leikhússins það er að segja nánd og gagnvirkni leikara og áhorfanda þá kemur hvað skýrast í ljós hversu erfitt er að sameina þessa tvö heima og sjálf lokin leysast í framhaldinu upp, verða að engu, áhorfandinn skilur ekki að allt sé búið. Ég á bágt með að trúa því að það sé vísvitandi gert til þess að börnin heimti að fá að fara aftur á næstu sýningu og velja betur. Því yfirleitt halda menn spennu og löngun til þess að sjá meira, meðal annars í sjónvarpsseríum, með því að enda á hápunkti sem kallar á áframhaldandi áhorf.
En til grundvallar sýningum á þessu verki liggja víst yfir 3000 valmöguleikar fyrir áhorfendur, leikara og tæknimenn að bregðast við. Mikil þekking mun því væntanlega safnast saman á komandi sýningum sem hægt verður nýta til að reyna að skilja hvar leikhúsið eigi heima í okkar mynd og tæknivædda heimi.