Snjóboltinn rúllar á Djúpavogi

14.07.2017 - 16:21
Mynd með færslu
 Mynd: Einkasafn  -  Rúllandi Snjóbolti/9
Alþjóðlega myndlistarsýningin „Rúllandi snjóbolti/9“ verður opnuð laugardaginn 15. júlí nk. í Bræðslunni á Djúpavogi, sem breytt hefur verið í sýningarsal. Alls taka 31 listamaður frá Kína, Evrópu, Ameríku og Íslandi þátt í sýningunni sem er hluti af alþjóðlegri sýningarröð. Er sýningin á vegum Chinese European Art Center (CEAC) í samstarfi við Djúpavogshrepp.

Er sýningin árlegur viðburður og nú haldin í fjórða sinn. Sýningin er samvinnuverkefni Djúpavogshrepps og kínversk-evrópsku menningarmiðsvöðvarinnar CEAC. „Kínversk-evrópska menningarmiðstöðin er löngu orðin þekkt í kínverska og evrópska listaheiminum og hefur staðið fyrir mörgum, stórum sýningum í Kína og á Íslandi“, segir í fréttatilkynningu. Sýningarstjórn er í höndum listamannanna Þórs Vigfússonar og Sigurðar Guðmundssonar.

Frá Xiamen á Djúpavog

Hjónin Sigurður og Ineke Guðmundsson eru búsett í borginni Xiamen á suð-austurströnd Kína. Þau eiga hús á Djúpavogi sem þau sækja heim á sumrin. Árið 1999 stofnaði Ineke menningarsetrið CEAC, sem er sjálfseignarstofnun sem hefur það að markmiði að stuðla að menningarlegum samskiptum milli Kína og Vesturlanda. Aðdragandi verkefnisins er sá að árið 2009 hafði Sigurður Guðmundsson gert „Eggin í Gleðivík,“ frægt verk sem stendur í jaðri Djúpavogsbæjar. Þá fór boltinn að rúlla, en árið 2012 ákvað Ineke, í samráði við CEAC og sveitarstjórn Djúpavogshrepps, að stofna myndlistarsýningu í plássinu. „Rúllandi snjóbolti/9“ er hluti af alþjóðlegri sýningarröð, og stendur talan 9 fyrir númer sýningarinnar í röðinni.

Mynd með færslu
 Mynd: Djúpavogsbær  -  Mynd:
Guðmundur og Ineke við „Eggin í Gleðivík“

Alþjóðlegt myndlistarsafn á Djúpavogi

Djúpavogshreppur er aðili að Cittaslow hreyfingunni sem eru samtök lítilla sveitarfélaga í 27 löndum víðsvegar um heiminn. Markmið Cittaslow er að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu í borgum og bæjum nútímans viðnám og heiðra þess í stað sérstöðu hvers sveitarfélags fyrir sig. Cittaslow sveitarfélög leggja m.a. áherslu á verndun náttúru og menningarminja, fegrun umhverfis, umhverfisgæði, eflingu staðbundinnar matarmenningar, gestrisni, kurteisi og vinsamlegt viðmót. Er þáttaka Djúpavogshrepps í sýningunni, í samvinnu við CEAC, í anda þeirrar stefnu.

Mynd með færslu
 Mynd: Einkasafn  -  Rúllandi Snjóbolti/9

Sigurður Guðmundsson segir sýninguna vera komna til að vera, en stefnir á að stækka verkefnið og starfsemina svo um munar: „Draumur minn og Þórs Vigfússonar er að gera nútímalistasafn á alþjóðlegum, háum level á Djúpavogi, sem byggir upp kolleksjón [ísl. safnkost]. Ég ætla að að notfæra mér það að hafa svona aðgang að myndlistargæðingum úti um allan heim, og fá þá til að gefa verk.“  Hann bætir við að samstarfið við bæjarfélagið hafi verið sérlega farsælt. „Það hefur verið einstaklega gott samstarf milli okkar og Djúpavogshrepps, þetta Cittaslow-mentalitet [ísl. hugmyndafræði Cittaslow] fellur okkur mjög vel í geð.“‘

Mynd með færslu
 Mynd: Einkasafn  -  Rúllandi Snjóbolti/9

 

Harðkjarna nútímalist

Sýningarnar hafa verið vel sóttar undanfarin ár. „Í fyrra komu 6500 manns á sýninguna sem stóð í 4 vikur, við kvörtum ekki yfir áhugaleysi. Það er skemmtilegt að gera svona á svona óvenjulegum stað, líka,“ segir Sigurður. Hann bætir því við að á sýningunum sé um að ræða harðkjarna nútímalist, „En ekki byggðalist, eins og tíðkast oft á smærri stöðum. Að henni alveg ólastaðri, en þetta er annað.“

Mörg stór nöfn í íslenskri samtímalist koma að sýningunni. Listamenn sem taka þátt í ár eru: Árni Ingólfsson, Árni Páll Jóhannsson, Arnout Mik, Dagrún Aðalsteinsdóttir, Egill Sæbjörnsson, Gjörningaklúbburinn, Guðlaug Mía Eyþórsdóttir, Guido van der Werve, Haraldur Jónsson, Helgi Þórsson, Hrafnkell Sigurðsson, Hreinn Friðfinnsson, Kan Xiuan, Kristján Guðmundsson, Magnús Logi Kristinsson, Margrét Blöndal, Marlene Dumas, Meiya Lin, Mercedes Azpilicueta, Ólafur Elíasson, Paulme Curnier-Jardin, Ragnar Kjartansson, Sara Björnsdóttir, Sigurður Guðjónsson, Sigurður Guðmundsson, Sirra Sigrún Sigurðardóttir, Stevens Vaughn, Tumi Magnússon, Þór Vigfússon, Wei Na og Yang Jian.

Listamaðurinn Haraldur Jónsson mun standa fyrir gjörningi á opnuninni, sem fram fer í Bræðslunni á Djúpavogi, laugardaginn 15. Júlí 2017 kl 15:00.