„Þeir geta alveg verið fínir ef þeir aðlagast og koma ekki til að breyta Íslandi í eitthvert Arabaríki,“ segir Sigríður Bryndís Baldvinsdóttir um innflytjendur. Hún er tveggja barna móðir og þjóðernissinni sem kippir sér ekki upp við að vera kölluð nasisti. Sigríður er viðmælandi í Paradísarheimt á RÚV sunnudagskvöldið 10. febrúar.

Sigríður Bryndís býr í Reykjavík og hefur mikinn áhuga á forni norrænni dulspeki og segist vilja að Íslendingar varðveiti þjóðerni sitt, menningu og tungu. Hún hefur látið húðflúra C18, þar sem 18 stendur fyrir AH, upphafsstafi Hitlers, á hálsinn á sér. Sigríður Bryndís dregur í efa að helför nasista hafi verið jafn víðfeðm og af er látið, heldur að færri hafi látist en haldið er fram, þó hún harmi hvernig fór.

Þannig þú ert á móti nasismanum? „Alls ekki sko, ekkert frekar en kommúnismanum. Þetta er bara pólitík þess tíma.“ En hann lifir, nú tölum við um nýnasisma? „Já, ég hef nú talað við ansi mikið af þessu fólki og þetta eru bara venjulegir þjóðernissinnar. Ef maður þarf að vera nasisti af því maður er þjóðernissinni, þá bara erum við það. Það snertir okkur ekki að vera kölluð nasistar eða rasistar. Við erum þjóðernissinnar og vitum það. Hvað aðrir segja er þeirra vandamál.“

Sjónarmið sem koma fram í þættinum eru alfarið sjónarmið viðmælandans og endurspegla ekki með nokkrum hætti sjónarmið eða viðhorf þáttastjórnanda eða RÚV. Rætt er við Sigríði Bryndísi í þætti Paradísarheimtar sem verður á dagskrá RÚV á sunnudagskvöldið 3. mars klukkan 20:35.

Leiðrétting: Í upprunalega færslunni stóð að þátturinn myndi vera á dagskrá 27. janúar, hið rétta er að hann verður sýndur sunnudagskvöldið 3. febrúar.

Leiðrétting: Ákveðið var að fresta sýningu þáttarins um viku, en hann verður sýndur sunnudagskvöldð 10. febrúar.