Snæfell er Íslandsmeistari kvenna í körfuknattleik eftir sigur á Haukum í oddaleik að Ásvöllum í kvöld, 59-67. Snæfell leiddi leikinn allt frá upphafi og staðan í hálfleik 21-32. Þetta er þriðja árið í röð sem Snæfell hampar Íslandsmeistaratitilinum en liðið varð einnig bikarmeistari á tímabilinu.

Haiden Denise Palmer var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar og hún átti góðan leik í kvöld. Palmer skoraði 21 stig auk þess að taka 12 fráköst. Gunnhildur Gunnarsdóttir, fyrirliði Snæfells, var með 14 stig. Hjá Haukum var Helena Sverrisdóttir atkvæðamest með 26 stig í liði Hauka og komu mörg þeirra undir lok leiks eftir að hafa verið í mjög strangri gæslu framan af.

Haukar-Snæfell 59-67 (15-18, 6-13, 12-10, 26-26)
Haukar: Helena Sverrisdóttir 26/17 fráköst, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 10/7 fráköst/3 varin skot, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 8/5 fráköst/3 varin skot, Pálína María Gunnlaugsdóttir 5/8 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 5, Sólrún Inga Gísladóttir 3, Dýrfinna Arnardóttir 2.
Snæfell: Haiden Denise Palmer 21/12 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 14/9 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 12, Berglind Gunnarsdóttir 11/4 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 3/3 varin skot, Andrea Björt Ólafsdóttir 2, María Björnsdóttir 2, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 2, Sara Diljá Sigurðardóttir 0/5 fráköst.