Smásagnasafn Þórdísar Helgadóttur hefur að geyma ferskar, ljóðrænar og vel stílaðar sögur að mati gagnrýnanda Víðsjár. „Fyrirtaks lesning þar sem aldrei er öll sagan sögð.“
Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar:
Þórdís Helgadóttir er ungur höfundur sem sendir frá sér smásagnasafnið Keisaramörgæsir. Bókin skiptist í þrjá hluta, kannski eftir ritunartímabilum en það er ekkert víst, fyrsta sagan er alla vega með mestum byrjandabrag og sú síðasta hefur brotist fullþroskuð út úr forminu. Alls eru þetta sextán sögur sem allar bera merki frumleika og fjörugs ímyndunarafls. Þær eru dregnar fáum dráttum, lausar við stað og tíma, hefjast í miðjum klíðum og þeim lýkur skyndilega; enginn aðdragandi, engar málalengingar en hið ósagða þrumir yfir og magnar upp spennu. Söguefnið er margs konar og hversdagsleika slær saman við furður: Tröll hreiðra um sig meðal manna, sjálfur djöfullinn er forstjóri H&M, það er tímavél í bílskúrnum og fjöregg skiptir um eigendur.
Í sumum sögunum hefur veröldin tortímst algjörlega (Bessadýrin, Keisaramörgæsir), í öðrum hafa sambönd fólks tortímst eða eru komin í öngstræti (Út á milli rimlanna, Leg, Lopi). Dýr koma víða við sögu, nútímamenn sjá þau sennilega helst í sjónvarpsþáttum þar sem róandi rödd lýsir atferli dýranna með fáguðum breskum yfirstéttarhreim (146) og í titilsögunni (sem er eins og leikrit) ætla persónurnar einmitt að horfa á hina frægu dýralífsmynd um ferðalag keisaramörgæsanna. Í þeirri sögu þrauka einu eftirlifendurnir í rafmagnsleysi við þröngan kost og framtíðarsýnin er ansi myrk. Fleiri dýr stinga upp kolli í bókinni, risavaxin skepna rís úr djúpinu og skellir saman skoltum, órangútan-api rjátlar í íbúðinni og einmana naggrís mætir örlögum sínum í þvottavélartromlu. Ein sagan heitir Bessadýrin en það eru raunveruleg óvenju harðgerð smádýr með mikla aðlögunarhæfni sem þola bæði frost og funa. Þau gætu verið einu dýrin sem lifa af margboðuð ragnarök en það er einhvers konar hnignunar-, vonleysis- og heimsendastemning yfir bókinni allri.
Áleitin saga heitir Bylgja, þar er sjónarhorn lítillar stúlku sem lítur á lífið eins og ráðgátu sem hún leysir út frá alls konar vísbendingum. Í erfiðleikum sem steðja að fjölskyldunni spjarar hún sig ein með aðstoð alfræðiorðabókar. En alfræðin nær ekki yfir týnda barnið, veikindi móður hennar og sorgina sem leitar allra. Mögnuð er sagan Leg, um hið glæsilega par Alís og Elí sem nær öllum markmiðum sínum og fær það besta út úr lífinu meðan aðrir ná í mesta lagi tuttugu til þrjátíu prósentum. Í matarklúbbnum með japanska þemanu verður óvænt uppgjör, grunur er samt aldrei staðfestur en Alís sem er hörkunagli og ætlar að keppa í Járnmanni afhjúpar ógeðslegt leyndarmál. Kannski áttar Elí sig núna á sársauka konu sinnar sem rúmaðist ekki í fullkomna lífinu þeirra en líklega er það of seint. Þessi saga gæti átt heima í Black Mirror-þætti á Netflix hvað efnistök varðar, vel byggð og spennandi.
Saga sem heitir Vesen nær furðulegum tökum á manni, þar ægir öllu saman, undirheimum og ofbeldi, einhyrningshorni, skarði í vör, hvalkjöti og smálánaokri. Andrúmsloftið einkennist af örvæntingarfullri sjálfsbjargarviðleitni Emmu, einstæðrar móður, í skuggaveröld sem smáborgararnir þekkja ekki. Innan um kostulegt karnival þegar hvalavinum slær saman við kjötætur í blóðugum götuslag og sögur af bergmálssöng og útrýmingu hvalastofnsins, rís svo stúlka loksins upp gegn kærasta sem hefur haft tangarhald á henni. Vel gert.
Ein stutt saga með löngum titli, Það er rangt að ég hafi átt í ástarsambandi við Filippo Tommasso Marinetti, er í orðastað konu sem er óvenju langlíf og talar líklega í síma við blaðamann sem er á höttunum eftir skandal um ítalska ljóðskáldið og fútúristann Marinetti (d. 1944) sem hún hélt kannski við. Eintalið berst að loftslagsbreytingum og sú gamla fer á flug í íroníunni:
„Hvað í veröldinni er til dæmis að svifryki? Svifrykið á Miklubrautinni - það er fullkomlega náttúrulegt. Náttúruleg útkoma af náttúrulegri hegðun dýrategundar sem til skamms tíma hefur gengið framúrskarandi vel í samkeppninni um náttúruvalið. Að útrýma öðrum tegundum er nú eiginlega bara skylda hverrar þeirrar lífveru sem á annað borð kemur sér í þá stöðu að geta gert það. Kannski við tortímum okkur sjálfum í leiðinni, það er svo sem náttúruleg hegðun líka. Þú sérð að það þarf að rýma svolítið til hérna“ (23).
Aðrar sögur eru ljóðrænar og torræðar, til dæmis Þetta heilaga og B5-M, formgerð þeirrar síðarnefndu er bréfaskipti sem eru ódagsett og ekki í tímaröð en segja marglaga sögu sem lesandi verður að ráða í. Textinn er víðast blátt áfram en sums staðar ljóðrænn, sumar setningar gætu staðið sem ljóð: „Barnið sem þú varst einu sinni lifir í mér eins og tálkn eða rófubein. Ég er botnlanginn í þér. Þú átt eftir að hlæja þegar þú lest þetta. Ég get næstum heyrt það“ (62). Í annarri ljóðrænni sögu leitar sögumaður alltaf uppi dýragarða, furðuleg fyrirbæri sem hefðu átt að leggjast af um leið og sjónvarpið var fundið upp.
„Í Bronx snúa górillurnar baki við gestum, luralegar og hálslausar. Niðurmjóar. En svo áður en maður veit af hafa þær dregið hnefana alla leið upp að glerinu og stara á mann óttalausum augum. Mér hefur verið ráðlagt að horfa ekki á móti. Ég velti því fyrir mér hvort villtir apar séu með sama augnaráð, ég hef aldrei séð górillu úti í náttúrunni. En augnatillitið þekki ég samt, ég hef mætt því oft áður. Á börum sem loka seint eða aldrei, framan í mönnum sem muna ekki lengur hvort þeir eru lausir á skilorði eða að bíða eftir að sitja af sér dóm. Ég lít undan“ (65-66).
Keisaramörgæsir Þórdísar Helgadóttur koma á óvart, sögurnar eru fjölbreyttar, vel stílaðar og byggðar, ferskar, ljóðrænar og íronískar. Fyrirtaks lesning þar sem aldrei er öll sagan sögð. Erum við mennirnir ekki svolítið eins og keisaramörgæs; hjarðdýr á köldum klaka sem er fast í eilífum kjólfötum og bægslast langar leiðir eftir viðurværi til æviloka? En kannski er ég bara að missa mig í túlkuninni, hugurinn fer á flug við lestur góðra bókmennta.