Á fullu tungli mánudag, 22. febrúar, koma út 2 tunglbækurnar: « Skíðblaðnir, fyrsti » og « Skíðblaðnir, annar » þar sem 14 ung skáld birta smásögur. Margir höfundanna hafa stundað nám í ritlist við Háskóla Íslands sumir endanlega útskrifaðir og aðrir í þann mund, sumir hafa lokið öðru listnámi. Sumir hafa sent frá sér eina eða jafnvel fleiri bækur hjá öðrum er smásagan í Síðblaðni það fyrsta sem þeir birta á útgefinni bók .
Þetta eru þau Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Einar Lövdahl, Magnús Sigurðsson, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Einar Leif Nielsen, Björn Halldórsson, Sverrir Norland, sem jafnframt er ritstjóri bókanna, Sólveig Johnson, Ragnar Helgi Ólafsson, Júlía Margrét Einarsdóttir, Friðgeir Einarsson, Bjargey Ólafsdóttir, Kristinn Árnason.
Sögur þessara höfunda eru ólíkar og fjalla um ýmis áleitin viðfangsefni samtíðar okkar, s.s. Arnold Swarzenegger, ástand eyðibýla á Íslandi, uppsagnir hjá Fasteignasýslu ríkisins, samband drengja við rafstelpur, tilvist ósýnilegra trölla, slysahættu við Reykjavíkurtjörn og nytsemi sálfræðimeðferða. Einnig stíll og frásagnarmáti hverrar sögu er einstakur og eru bækurnar tvær eða öllu heldur sögurnar sem þær innihalda því einkar áhugaverðar að lesa hverja á fætur annarri. Þótt bækurnar séu ekki lengur fáanlegar má sem best kynna sér sögurnar á heimasíðu Skíðblaðnis.
Tónlistin sem heyrist á milli textabrotanna er úr tóngjörningi þeirra Berglindar Maríu Tómasdóttur, Einars Torfa Einarssonar og Tinnu Þorsteinsdóttur og réðst beiting hljóðfæra og annarra tóngjafa af því sem hljóðfæraleikararnir sáu á myndum af hreyfingum í rými staðarins, þ.e. Petersen svítunnar í Gamla bíó, sem varpað var á vegg gegnt þeim.