Mynd með færslu
25.11.2016 - 16:54.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Á plötunni What I Saw On The Way To Myself rífa Moji & The Midnight Sons upp sjóðandi heita blúsrokkstemningu. Meðlimir koma af ólíkum menningarsvæðum en tengjast saman í rokktrúnni sem blessunarlega þekkir engin landamæri. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í plötuna sem er plata vikunnar á Rás 2.

Tónlist er undraverð. Tónlist er snilld. Þetta verkefni er svo dásamlegt dæmi um þetta. Söngkonan Moji Abiola var í sumarfríi á Íslandi og hitti á trymbilinn Frosta Jón Runólfsson fyrir tilviljun á barnum. Eitt leiddi af öðru og áður en þau vissu af voru þau farin að setja niður lagahugmyndir heima hjá Frosta. Nágranni hans, Bjarni M. Sigurðsson, gítarleikari með meiru, vaknaði við atið og slóst óðar með í för. Bjarni er hvað þekktastur fyrir veru sína í Mínus, Frosti trommaði með Klink í eina tíð en áhugi þeirra á því sem er að finna á þessari plötu –  hrátt og sólbakað blúsrokk sem tengir inn í sálartónlist og eyðimerkurlegar stemmur – er og mikill og hefur m.a. fundið sér farveg í gegnum verkefni eins og Esju (sveit leidd af Krumma, fyrrum söngvara Mínus og Daníel Ágúst) og fleira, m.a. var platan sem Bjarni gerði með Þórunni Antoníu mjög „amerísk“ (er að leita að íslenskun á „americana“ hugtakinu).

Tilfinningaþrungið

Moji sjálf hafði sungið bakraddir í Texas með mönnum eins Eddie Vedder og Glen Hansard og reynslan því fyrir hendi. Allt saman small þetta svo er Hallur Ingólfsson henti í bassaleik og upptökur í samstarfi við Bjarna. Eins og segir í upphafi er þessi plata dæmi um dásamlega slembilukku en sýnir um leið svo vel að tónlistin þekkir engin landamæri. Skemmst frá að segja dettur sveitin í þéttan og góðan gír – það kemst ekki vatn á milli þegar þessir meistarar munda hljóðfærin – og sviptir upp frábærlega rokkandi lögum í þeim stíl sem þegar hefur verið nefndur.

Hvort sem um er að ræða þyngri lög („Broken Bird“ er angistarfull ballaða) eða grúvandi („Dog Days of Summer“ tekur Black Crowes í bakaríið) þá gengur allt upp hérna. Og Moji getur sungið. Ó já, hún getur sungið. Röddin er kraftmikil, rám þegar við á og engilblíð ef því ber að skipta. Þú trúir henni þegar hún syngur, hún dregur mann inn með sálarríkum, einlægum og tilfinningaþrungnum sprettum, sérstaklega í hinu magnþrungna „Cut me Down“, hvers texti er rosalegur.

Ég vona að þessi heilaga þrenning tjaldi ekki til einnar nætur í eyðimörkinni. Það væri synd.

Tengdar fréttir

Tónlist

What I Saw on the Way to Myself

Menningarefni

Náðargáfa Stefáns Hilmarssonar

Menningarefni

Aðgengilegt flipp og skítugar stemmur

Tónlist

Ástin er svöðusár