Bandaríska rokkhljómsveitin Slayer hefur stefnt tónlistarhátíðinni Secret Solstice fyrir að hlunnfara sig um sextán milljónir króna. Núverandi stjórnendur hátíðarinnar segja málið sér óviðkomandi. Reykjavíkurborg styrkir hátíðina og málið verður tekið fyrir í borgarráði í næstu viku.

Bandaríska þungarokksveitin Slayer er heimsþekkt, hefur verið starfandi í hátt í 40 ár og sent frá sér tólf hljóðversplötur sem hafa selst í milljónum eintaka. Sveitin var aðalnúmerið á Secret Solstice-hátíðinni í Laugardal í júní í fyrra. Nú hefur umboðsaðili sveitarinnar stefnt hátíðinni vegna skuldar upp á rúmlega 133 þúsund dollara, eða tæpar sextán milljónir króna, sem er meirihlutinn af þóknun sveitarinnar. Gjalddagi kröfunnar var 4. júlí í fyrra og þrátt fyrir innheimtutilraunir hefur hún ekki fengist greidd.

Secret Solstice er með samning við Reykjavíkurborg til ársins 2020, en borgin styrkir hátíðina. Jón Gunnar Ásbjörnsson, lögmaður umboðsaðila Slayer, skrifaði bréf til borgarinnar um málið, þar sem kemur meðal annars fram að auk þess að hafa ekki greitt áðurnefnda kröfu, hafi forsvarsmenn hátíðarinnar haldið eftir 20 prósentum af tekjum Slayer til að standa skil á staðgreiðslu til skattayfirvalda. Ríkisskattstjóri hafi hins vegar staðfest að vörsluskattinum hafi ekki verið skilað. Í bréfinu er það sagt brot á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í tvígang gert árangurslaust fjárnám hjá Solstice Productions sem hefur séð um rekstur Secret Solstice. Fram hefur komið í fjölmiðlum að fjöldi fólks og fyrirtækja hafi ekki fengið greitt fyrir vinnu sína hjá fyrirtækinu. Nú hefur fyrirtækið Live Events tekið við rekstri hátíðarinnar og gert nýjan samning við Reykjavíkurborg.

„Alveg óviðkomandi“

Hljómsveitin Reykjavíkurdætur vakti athygli á því í febrúar að hún hefði ekki fengið greitt fyrir að koma fram á hátíðinni í fyrra. Af því tilefni var haft eftir Víkingi Heiðari Arnórssyni, nýjum framkvæmdastjóra Secret Solstice, að gert verði upp við alla listamenn af síðustu hátíð. Slayer hefur stefnt bæði nýja félaginu, Live Events, og gamla félaginu, Solstice Productions, vegna málsins.

Í skriflegu svari til fréttastofu segir Víkingur Heiðar að málið sé Live Events alveg óviðkomandi. Ekki hefur náðst í Friðrik Ólafsson, stjórnarformann Solstice Productions. Í áðurnefndu bréfi lögmannsins kemur fram að mjög erfiðlega hafi gengið að hafa uppi á aðstandendum hátíðarinnar í fyrra, senda þeim bréf og birta þeim stefnu.

Secret Solstice-hátíðin verður haldin í Laugardalnum í fimmta sinn í sumar, og þar eru engin smá nöfn á dagskrá. Nægir þar að nefna hljómsveitina Black Eyed Peas, Robert Plant söngvara Led Zeppelin, Sugarhill Gang og Ritu Ora.

Í bréfinu segir að umboðsaðili Slayer eigi bágt með að skilja hvernig það geti staðist að til standi að halda hátíðina með heimsþekktum tónlistarmönnum, þegar ekki er búið að gera upp við aðalnúmerið frá því í fyrra. Óskað sé eftir afstöðu Reykjavíkurborgar til þessa. Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar, segir í samtali við fréttastofu að málið sé til skoðunar hjá borginni. Fjallað verði um það í borgarráði í næstu viku, og að þá ætti málið að skýrast.