Fjármál eru meira tabú en kynlíf og Íslendingar fá falleinkunn þegar kemur að fjármálalæsi segir forstöðumaður stofnunar um fjármálalæsi. Í kvöld er sýndur fyrri þáttur af tveimur um fjármál einstaklinga hér í sjónvarpinu.
Áform um bætta heilsu og hollari lifnaðarhætti eru nú alls ráðandi og ekki úr vegi að vekja fólk til umhugsunar um hvernig það geti bætt fjármálastöðu sína. Þættirnir Ferð til fjár eru byggðir á samnefndri bók eftir Breka Karlsson. Kveikjan að bókinni var sú að hann fór sjálfur flatt á því að þekkja ekki nægilega vel til í fjármálaheiminum. Ástæðurnar fyrir lélegu fjármálalæsi eru margar. Breki segir að Íslendingar tali lítið um peninga, foreldrar geri lítið af því að tala um peninga við börnin sín og að kennslu í fjármálalæsi sé ekki nógu markviss. Eitt að markmiðum þáttanna er að sýna fólki fram á að allir geti lagt fyrir, annað séu ranghugmyndir. Lág upphæð á mánuði geti vaxið hratt með lítilli fyrirhöfn.