„Það er alveg ljóst að í þessum kjarasamningi er ekki að finna neinn stórsigur varðandi styttingu vinnuvikunnar og það er ekkert í ákvæðum þessa samnings sem tryggir neina styttingu vinnuvikunnar. Sá slagur er óunninn,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. Rætt var við hann í Morgunútvarpinu.
Viðar segir að Efling hafi samþykkt grundvallaratriði kjarasamninga og kynni hann fyrir félagsmönnum á næstu dögum. Mikilvægt sé að greina rétt og nákvæmlega fra því sem fram komi í samningunum. Misskilnings hafi gætt um styttingu vinnutímans sem sé ekki hluti af þeim rétti sem samningurinn felur launafólki. „Heldur er um að ræða mjög skilyrtar heimildir til þess að gera samkomulag við einstaka vinnuveitendur á hverjum og einum vinnustað og samningurinn tryggir enga niðurstöðu í því efni. Þetta er bara heimild til að ganga til viðræðna og skilyrt að starfsmenn þurfa þá að byrja á því að gefa frá sér launaða kaffitíma. Gegn því að gera það þá geta þeir fengið ákveðna viðbótar raunstyttingu sannarlega en hún er alltaf háð því að þeir gefi frá sér hina launuðu kaffitíma.“
Þetta sé viðbótarsamkomulag sem heimilt sé að gera á vinnustaðargrundvelli og krefjist samþykkis bæði starfsmanna og atvinnurekanda á hverjum vinnustað.
Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.