Sláandi líkindi með Skíð og Íslandi

10.08.2017 - 11:05
Það er ekki aðeins á Íslandi sem fjöldi ferðamanna er slíkur að margir telja að þolmörkum sé náð. Hið sama gildir um Isle of Skye, sem er ein af Suðureyjum Skotlands.

Skye er nefnd Skíð í íslenskum fornritum og þar voru rík norræn áhrif á víkingaöld. Náttúrufegurð er mikil, fjöll, vötn og firðir, ríkulegt dýralíf og nú segja heimamenn að þolmörkum sé náð. Vegir og slóðar anna vart öllum fjöldanum. En ferðafólk er ánægt.

Kate Forbes, sem er fulltrúi Skye, Lochaber og Badenoch kjördæmisins á skoska þinginu, sagði í viðtali við BBC að til greina kæmi að leggja sérstakan skatt á ferðamenn á Skíð til að kosta nauðsynlega uppbyggingu á eynni. Hún nefndi að meðal annars þyrfti að koma upp ferðakömrum. Þau náðhús sem fyrir væru á Skíð dygðu hvergi.

Mynd með færslu
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV