Seðlabankastjóri gerir sér vonir um að skýrsla um 500 milljóna evra lánið sem bankinn veitti Kaupþingi daginn sem neyðarlögin voru sett árið 2008, komi út í næsta mánuði. Mögulegt er að vegna samninga um leynd, verði tvær útgáfur af skýrslunni.

Ekki hefur verið ljóst hvernig láninu var ráðstafað. Á þessum tíma voru 500 milljónir evra um 80 milljarðar króna og stór hluti gjaldeyrisvaraforða landsins. Lánið var veitt gegn veði í danska bankanum FIH.

Í Kastljósi í október 2016 kom fram að starfsmaður Seðlabankans hefði sagt í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara að Davíð Oddsson þáverandi seðlabankastjóri, hefði tjáð sér að hann hefði sagt Geir Haarde þáverandi forsætisráðherra, að lánið væri tapað áður en það var veitt og Geir hafi ákveðið að veita lánið. Geir sagði í skriflegu svari til Kastljóss að af og frá hefði verið að hann hafi ákveðið lánið, enda hafi slíkt verið á valdi Seðlabankans. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði árið 2016 að bankinn hygðist birta skýrslu um aðdraganda og eftirmál lánsins. Hann segir að drög að skýrslunni liggi fyrir, en þau þurfi að vinna betur. Upplýsingar frá Kaupþingi voru meðal þess sem beðið var eftir.

„Við erum núna búin að fá svar sem að svaraði kannski ekki að öllu leyti, en að einhverju leyti, og það svar mun verða hluti af skýrslunni. Og ég er að vona það að það verði hægt, það kannski næst ekki fyrir áramót, en mjög fljótlega á nýju ári. Það er mín von en ég veit ekkert hvað gerist, kemur upp á,“ segir seðlabankastjóri.

Aðspurður sagði Már að skýrslan væri komin það langt að góðar líkur væru á að hún yrði birt þegar í janúar. Þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi talið sig fá fullvissu fyrir því hjá danska seðlabankanum að veðið fyrir láninu væri traust, reyndist það ekki svo. Þegar FIH-bankinn var seldur árið 2012, tapaði Seðlabanki Íslands um 35 milljörðum króna. Már segir að vandamál gætu komið upp varðandi FIH í skýrslunni því sumt þar hafi með samningum verið bundið í leynd.

„Og við þurfum þá annað hvort að fara í gagnaðilann og biðja um hann um að létta henni eða þá að við birtum þá einhverja skýrslu, annars vegar gagnvart þeim sem eru innan leyndargirðingarinnar, bankaráði og slíkum aðilum þar sem allt er sýnt, og svo auðvitað aðra skýrslu þar sem kjarninn kemur fram út á við. En við viljum ekki lenda í málsóknum út af þessu öllu saman, þannig að það er svolítil flækja sem við erum að reyna að finna út úr.“

Sem fyrr segir hafa vaknað spurningar um hvernig láninu var ráðstafað. Þórður Snær Júlíusson blaðamaður sem skrifaði bókina Kaupthinking segir að hluti þess hafi farið til Svíþjóðar, hluti til Deutsche Bank og hluti til Lúxemborgar vegna skuldabréfakaupa.