Forstjóri Landsvirkjunar segir að Ísland sé að missa af ákveðnum viðskiptatækifærum til fullnýta orkuna hér, í ljósi þess að landið sé ekki tengt raforkumarkaði Evrópu. Hann segir að það séu kostir og gallar við lagningu sæstrengs en skynsamlegt sé að skoða málið gaumgæfilega.
Orkumarkaður í mótun: Viðskipti og verðmyndun var yfirskriftin á fundi sem Landsvirkjun stóð fyrir. Þar var varpað ljósi á raforkumarkaðinn í Evrópu og á Íslandi og jafnframt á stöðu raforkuframleiðslu í heiminum. 2016 stóðu kol og gas undir um 65% af allri raforkuframleiðslu í heiminum og að auki voru 11% frá kjarnorku. 24% komu frá endurnýjanlegum orkuauðlindum, vatnsorku, jarðvarma-, sólar- og vindorku. Það er stefnt að því að þessi hlutföll snúist í raun við fram til ársins 2040. Þá á hlutfall endurnýjanlegrar orku að vera komið í 63% á heimsvísu. Þegar er sameiginlegur raforkumarkaður í Evrópu þar sem endurnýjanlegum orkugjöfum hefur vaxið fiskur um hrygg. Þeir eru í mörgum tilfellum ósamkeppnishæfir en stuðningur við þá hefur stóraukist síðustu ár, nam á heimsvísu 26 milljörðum bandaríkjadala 2007 en var kominn í rúma 140 milljarða 2016.
Eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku hefur aukist mikið. Fyrirtæki eins og t.d. Facebook hafa sett sér markmið um að nota einungis endurnýjanlega orku. Viðskipti með svokölluð græn skírteini eða upprunavottorð blómstra. Á morgunvaktinni á Rás 1 í morgun kom fram í viðtali við Stefaníu G. Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra hjá Landsvirkjun, að hér innanlands séu skírteinin innifalin í orkuverðinu en þó ekki til stóriðjunnar. Jafnframt stefni í að á næsta ári verði seld skírteini fyrir einn milljarð til fyrirtækja utan landsteinanna.
Mikil ásókn í græn skírteini
Það er ýmislegt líkt með Noregi og Íslandi fyrir utan þá staðreynd að Norðmenn framleiða umtalsvert af olíu. Raforkuframleiðslan innanlands byggist þó nær einungis á endurnýjanlegri orku eins og á Íslandi. Norðmenn tengjast hins vegar raforkumarkaðinum í Evrópu þar sem daglega fara fram lífleg viðskipti. Eyrún Guðjónsdóttir starfar í Noregi sem sjálfstæður ráðgjafi á sviði endurnýjanlegrar orku. Hún segir að norsk fyrirtæki séu í auknum mæli farin að sækjast eftir grænum skírteinum eða vottun fyrir því að þau noti endurnýjanlega orku. Skírteinin eru staðfesting á því að tiltekið magn raforku hafi verið framleitt úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Greiðslan styrkir um leið uppbyggingu grænna orkufyrirtækja. Eyrún bendir á að mörg fyrirtæki hafi ekki séð sér hag í að greiða fyrir þetta aukalega og bara einblínt á að fá raforku á sem lægstu verði. Það eigi við norsk fyrirtæki sem eigi kost á endurnýjanlegri orku.
„En smám saman hafa þau skilið hvernig kerfið virkar þegar viðskiptavinir óska eftir því að fá vottorð um að verið sé að nota endurnýjanlega orku. Þá þurfa fyrirtækin að hugsa málið og kaupa græn skírteini fyrir þá framleiðslu," segir Eyrún.
Orkan útflutningsverðmæti
Á sama tíma og eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku eykst í Evrópu getur Ísland státað af því að vera með nær 100% endurnýjanlega orku. Hvernig passar Ísland inn í þessa mynd? Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, segir að íslensk raforka sé í raun mikilvæg útflutningsvara með því að álverin noti hana við framleiðsluna.
„Og svo koma gagnaver. Þau eru með viðskiptavini erlendis, jafnvel stórfyrirtæki. Alls konar útreikningar eru gerðir hér í gagnaverum sem svo gagnast einhverju fyrirtæki í Evrópu eða annars staðar. Þannig að orkan okkar hefur alltaf verið útflutningsverðmæti,“ segir Stefanía.
Hún bendir líka á að talsvert af fyrirspurnum berist frá fyrirtækjum sem hafi áhuga á að nýta íslenska orku. Hún segir að ef hráefni sé unnið með grænni orku sé það öllum heiminum til hagsbóta.
„Vegna þess að loftslagsbreytingar líta ekki á nein landamæri. Þær koma til okkar á endanum. Þetta er mjög mikið okkar mál. Við erum með gríðarlega verðmæt útflutningsverðmæti sem við sem þjóð erum að nýta okkur til hagsbóta. Við erum líka með verðmæti sem geta breytt miklu fyrir heiminn,“ segir Stefanía.
Erum að missa af viðskiptatækifærum
Noregur er tengdur öðrum löndum með sæstreng. Innan Landsvirkjunar hafa verið hugmyndir um tengingu yfir til Bretlands. En er hægt að segja að Ísland sé að missa af einhverju í ljósi þess að landið er ekki tengt við meginland Evrópu? „Ég myndi ekki segja það,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Vissulega sé hægt að fá hingað fyrirtæki til að nýta orkuna.
„Hins vegar erum við að missa af ákveðnum viðskiptatækifærum. Við erum að missa af möguleikum á að fullnýta kerfið okkar. Það að vera með svona lokað kerfi veldur þessari óhjákvæmilegu sóun sem við horfum upp á á hverju ári. Lónin yfirfyllast og verðmætin renna til sjávar. Þannig að við getum nýtt þetta með tengingu og án tengingar,“ segir Hörður.
- En væri æskilegra að nýta þetta með tengingu?
„Það er okkar skoðun að það sé mikilvægt að skoða það mjög gaumgæfilega. Við sjáum að það er að verða gríðarleg þróun í þessu. Þetta hefur haft mikil áhrif á lífskjör Norðmanna. Þeir sjá að olía er að minnka og þá eru þeir að horfa mun meira til endurnýjanlegrar orku. Þeir byggja mikið upp, litlar vatnsaflsvirkjanir og vindorku og leggja mikla áherslu á að tengjast erlendum mörkuðum og nýta eiginleika raforkunnar sem batterí. Ef við horfum til annarra þá er skynsamlegt að skoða þetta gaumgæfilega. Það eru kostir og gallar en við höfum sagt að þetta séu áhugaverð viðskiptatækifæri sem við ættum að skoða, en við höfum nægan tíma,“ segir Hörður.