Dagur íslenskrar tungu er haldinn í dag, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Sjálfur var Jónas greinilega viðfelldinn og skemmtilegur og kom miklu í verk, segir Óttar Guðmundsson geðlæknir. En hann hafði sína djöfla að draga og áfengið var honum fjötur um fót. Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar heldur á morgun málþing þar sem fjallað verður um manninn að baki helgisögninni um þjóðskáldið Jónas.

„Það hefur verið mikil helgisögn í kringum Jónas," sagði Óttar í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í  morgun. „Við ætlum aðeins að skyggnast á bak við helgimyndina; hver var þessi maður, hverjir voru hans eiginleikar, veikleikar og vandamál og það kemur víða fram að hann drakk mikið og áfengið var honum fjötur um fót."

Óttar segir að nú myndu menn sennilega reyna að koma Jónasi í meðferð og reyna að fá hann til að hugsa líf sitt upp á nýtt. Reyndar hafi menn reynt að fá hann í bindindisfélag í Kaupmannahöfn. „En hann sá alla meinbugi á því, hann vildi frekar drekka í hófi, sem  er svona draumur allra alkóhólista og gengur nú oft illa. Svo endar ævi þessa brilljant manns mjög illa, hann dettur í stiganum heima hjá sér, fær opið beinbrot og fljótlega sýkingu eða blóðeitrun."

Óttar mun í sínu erindi fjalla um helgisögnina um dauðdaga Jónasar. „Þegar Jónas er dáinn þá skrifar Konráð Gíslason lýsingu á þessum dauðdaga sem er ótrúlega mikið rómantískt bull. Það er bara hans ímyndun og hvernig hann hefði viljað að Jónas hefði dáið. Það er ekki í neinu samræmi við raunverulegan dauðdaga skáldsins. Hann talar um að Jónas hafi verið að lesa spennubók nóttina áður en hann deyr þegar við vitum að þá er hann eiginlega í dái, hann er með háan hita, með blóðeitrun. Þetta var þessi helgisögn sem var búin til í kringum Jónas og nær síðan hámarki sínu með beinaflutningunum á síðustu öld, þegar Jónas frá Hriflu lét flytja bein Jónasar til Íslands. Síðan er verið að þvælast með þau um landið og þau voru síðan flutt til Þingvalla."

Auk erindis Óttars á málþinginu fjallar Torfi Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldarfræðum, um drykkjuskap skálda og rómantík á 19. öld, Páll Valsson, rithöfundur og höfundur ævisögu Jónasar, fjallar um breyskleika Jónasar, Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum, talar um ástamál Jónasar og Jón Karl Helgason flytur erindi um bein Jónasar.