Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir að stjórn flokksins komi saman í dag og ræði hljóðupptöku af samtölum þingmanna úr hennar eigin flokki og Miðflokknum þar sem falla niðrandi ummæli um hana. „Ég er ekki að reyna að koma með svona ákúrur á mína samstarfsmenn, hvorki þá eða aðra sem brosa til manns á göngunum um leið og þeir greinilega skutla hnífunum í mann þegar maður gengur fram hjá þeim,“ segir Inga sem var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2. 

Á upptökunni heyrast þingmenn Flokks fólksins lýsa efasemdum um að hún geti stjórnað flokknum. Inga segist aldrei hafa orðið vör við vantraust í sinn garð frá Karli Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni, þingmönnum Flokks fólksins. „Þetta er eitthvað sem við eigum eftir að ræða í dag. Bæði kemur saman stjórn Flokks fólksins og auðvitað þurfum við að taka á þessu máli. Þetta er grafalvarlegt eins og þú segir. En ég er seinþreytt til vandræða og er það einnig nú,“ bætir Inga við.

Inga segir viðbrögð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, sorgleg. „Hann kemur með sínar samsæriskenningar og firrar sig allri ábyrgð eins og venjulega. Hvort sem hann flytur hér bunka í skattaskjól af peningum eða kemur fram þarna þá er það öðrum að kenna,“ segir Inga. Sigmundur hefur sent frá sér yfirlýsingu og segir alvarlegt ef farið sé að stunda hleranir á einkasamtölum stjórnmálamanna. 

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins hefur beðist afsökunar á ummælum sínum í upptökunni. Inga segist hafa fyrirgefið honum svo framarlega sem hann meinti það sem hann væri að segja. Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem hann harmar ummælin sem hann lét falla og birst hafa í fjölmiðlum.