„Ætli þetta sé ekki bara það sem hún sér mig éta þegar ég mæti hingað, mín nostalgía í því að koma til Íslands er að fá sér pulsu og kókómjólk, borða allt of mikið af kleinum og svo er það bara beint í sund,” segir myndlistarmaðurinn Baldur Helgason og hlær, en nú stendur yfir í Gallerý Port sýningin Skemmtilegs, samsýning Baldurs og eiginkonu hans Patty Spyrakos.

Skemmtilegs er fyrsta samsýning þeirra hjóna á Íslandi en þau búa og starfa í Chicago í Bandaríkjunum. Baldur sýnir teikningar og olíumálverk en Patty litla handunna keramíkskúlptúra.

Skúlptúrar Pattyar eru flestir naktar konur með þykkar varir. Í kynningu sýningarinnar segir að verkin sýni „hráan raunveruleika þess að reyna að viðhalda öflugri sjálfsvitund, samtímis því að þurfa bæði að bjóða mjólk og huggun.”  En í öðrum verkum sýnir hún hversdagsleg vinsæl íslensk matvæli, til að mynda pylsu, SS-pylsusinnep, kleinur og brúnhvíta kókómjólkurfernu, útlit og fagufræði sem er brennimerkt inn í vitund allra þeirra sem hafa alist upp á landinu undanfarna áratugi.

Baldur hefur búið í Bandaríkjunum undanfarinn áratug, fyrst í San Francisco þar sem hann lagði meðal annars stund á teikninám við Academy of Art University, en fluttist síðar til Chicago.  Teikningar hans hafa birst með greinum í ýmsum blöðum, meðal annars nú nýlega í New York Times. „Þegar maður var í teiknináminu var það heilagi kaleikurinn að teikna fyrir New York Times og New Yorker, þannig að nú er bara New Yorker eftir á bucket-listanum,” segir Baldur.

Í málverkum á sýningunni í Gallerí Porti vinnur hann með mannlegar fígúrur sem eru þó skrumskældar og brotnar upp í skopmyndastíl, eru súrrealískar og skondnar. Og eins og segir í tilkynningu frá galleríinu þá vega verk hans salt á milli angistar og kímni en undir yfirborði viðfangsefnanna er að finna öflugan straum mennsku og mannúðar í skopmyndastíl. „Þetta byrjaði sem einhverskonar sjálfsmyndir. Þegar ég var að læra úti var maður mest að mála eftir módelum, og svo fékk maður leið á því, að mála það sem var sett fyrir framan mann. Þá fór ég bara að leyfa málverkinu og olíunni að taka yfir,” segir Baldur.

Hann segir myndirnar oft vera litlar fyndnar sögur sem hann ímyndi sér á meðan hann máli: „Ég er oftast eitthvað að deyja úr hlátri yfir þessu sjálfur í stúdíóinu, en ég veit ekki hvort aðrir fái það sama út úr þeim. En til þess að fá fólk til að meðtaka myndirnar reyni ég að lauma inn tilvísunum í listasöguna.”