Skúli Mogensen, forstjóri WOW, segir að rekstrarbreytingarnar á WOW, sem kynntar voru í morgun, hafi verið unnar í nánu samstarfi við flugfélagið Indigo Partners. Síðarnefnda félagið hefur hug á að kaupa stóran hlut í WOW. Með skipulagsbreytingum sem kynntar voru í morgun missa alls 350 starfsmenn vinnuna, þar af eru 111 fastráðnir.
„Eins og hefur komið fram er eitt af skilyrðum þeirra að við endurskoðuðum flotann og leiðarkerfið. Þetta er liður í því og þetta er erfitt skref en nauðsynlegt til að tryggja framtíðarvöxt félagsins til lengri tíma litið,“ segir Skúli. Hann segir það þó ekki hafa verið krafa Indigo að ráðist yrði í þessar breytingar.
„Nei ekki beint. Það er ekkert launungarmál að síðasta ár er búið að reynast okkur mjög erfitt. Af margvíslegum ástæðum,“ segir Skúli og það hafi legið fyrir lengi að það þyrfti að takast á við það. „Þeir hjá Indigo hafa hins vegar skerpt á því með okkur og aðstoðað okkur í því að skoða leiðarkerfið í heild sinni,“ segir Skúli.
Skúli segir ekki hægt að fullyrða á þessari stundu hvenær samningaviðræður við Indigo klárist. „Það eru nokkur veigamikil atriði sem við erum að leysa úr og þetta er eitt af þeim. Að koma okkur í réttan búning ef svo má að orði komast. Við erum að fara aftur í grunnkjarna WOW og sýnina sem við byrjuuðm með á sínum tíma. Að vera alvöru lággjaldafélag og einfalda allan rekstur. Hin tvö skilyrði eru að ná samningum við leigusala. Með þessari aðgerð erum við að selja eða skila alls níu velum. Sömuleiðis þurfum við að ná samningum við skuldabréfaeigendur okkar. Sú vinna er í gangi. Við erum að vinna eins hratt og við getum í að fullnægja öllum skilyrðum,“ segir hann.
Skúli segir að undanfarið hafi verið gerð ákveðin mistök í rekstri WOW. „Ég myndi segja að annars vegar að við tókum inn breiðþotur sem eru mun stærri flugvélar heldur en uppistaðan af okkar flota. Þáð var mjög stórt skref og reyndist flækja reksturinn verulega. Jafnframt fórum við í að setja premium og betri sæti um borð og þá vorum við allt í einu farin að færa okkur nær gömlu flugfélögunum. Það voru reginmistök. Við hefðum átt og eigum að fylgja okkar upprunalegu stefnu. Það er það sem við erum að gera núna,“ segir Skúli.
Skúli segir að flestir þeirra 111 starfsmanna sem sagt er upp störfum í dag hafi verið með hefðbundinn þriggja mánaða uppsaganrfrest í sínum ráðningasamningum.