Skúli Magnússon, faðir Reykjavíkur, varð fyrstur Íslendinga fógeti landsmanna. Skúli var einnig helsti drifkraftur í stofnun Innréttinganna sem var vísir eiginlegrar iðnbyltingar á Íslandi á átjándu öld. Þórunn Jarla Valdimarsdóttir hefur ritað sögu stórmennisins Skúla fógeta.

„Það er stytta hérna á Fógetatorgi af Skúla og ég hitti konu sem gengur þar í gegnum með dóttur sína og dóttirin spyr, „Hver er þessi karl?“ og þá svarar mamman: „Þetta er hann Skúli fúli.“ Þetta segir Þórunn Jarla þegar hún er spurð um hvaða manneskju Skúli fógeti hafði að geyma. Skúli hafi alls ekki verið fúllyndur maður en stytta Guðmundar frá Miðdal gefi aðra mynd. „Guðmundur gerði styttuna með engar varir. Þetta er alveg dæmigert fyrir listamenn sem hafa ekki eirð í sér að lesa, því hann hefði getað lesið bók um Skúla eftir Jón Aðils. Þar kemur fram að Skúli var varaþykkasti maður sem um getur og bólugrafinn. Skúli var nefnilega ekki Skúli fúli. Hann var drykkfelldur, drabbaði, var reyndar skammarlega drykkfelldur. Hann var örlátur, var mjög skemmtilegur og hafði hressandi nærveru,“ segir Þórunn Jarla.

Skúli var einn forvígismanna Innréttinganna sem var framtak nokkurra embættismanna og var sett á laggirnar til að hefja viðreisn íslensks efnahags og setja á laggirnar verksmiðjuframleiðslu á Íslandi. Starfsemin varð fjölþætt; jarðræktartilraunir, brennisteinsvinnsla, ullarvefsmiðja, skinnaverkun, skipasmíðar og útgerð svo það helsta sé nefnt. En voru Innréttingarnar misheppnaðar? „Nei, þær tókust því Reykjavík varð til. Upp kom hegningarhús, biskupinn upp í Laugarnes og Fálkahúsið kom. Þegar Skúli fer út og sækir styrki til Innréttinganna þá fær hann leyfi til að byggja fyrstu höll á Íslandi í Viðey. Flestir sem fóru út komu ekki með verkvit heim, því þeir voru bara að læra guðfræði eða lögfræði en hann hafði alltaf verið mikill verkmaður og skyldi að maður byggir ekki upp fína menningu nema án þess að hafa góða atvinnuvegi. Það var kannski þess vegna sem vinstri menn voru ekki hrifnir af honum og hægri menn skrifuðu um hann. Hann átti verksmiðju, var skattmann en enginn Íslendingur hefur verið meiri krati en Skúli fógeti því enginn fékk eins mikið fé frá kónginum til að byggja upp til góðra hluta.

Þrátt fyrir að vera kallaður faðir Reykjavíkur þá fór stór hluti starfsferils hans fram fyrir norðan. Skúli var Skagfirðingur og hafði meðal annars gegnt stöðu sýslumanns þar áður en hann kemur suður. „Hann er algerlega norðlenskur, faðir Reykjavíkur. Skagafjörður var flottasta sýsla Íslands, þegar Hólar voru og hétu. Þar var Skúli sýslumaður en ævintýrið hófst í Skaftafellssýslu. Þar gerði hann tvær dætur prestsins sem hann bjó hjá óléttar í einu. Þetta eru svona sannar sögur á rauðu ljósi eða hvað þetta heitir,“ segir Þórunn um Skúla sem vissulega var mikill svallari.

Hann var þó áhrifamestur Íslendinga sína hálfa ævina og stórmenni í ljósi sögunnar. „Hann náði mér upp að öxl. Menn voru litlir þá, hann var meðalmaður. En hann var stórmenni í öllum skilningi. Hann er stærstur, allavega stærsti maður átjándu aldar. Bendið mér á einhvern stærri. Snorri Sturluson, þetta var allt saman bull sem hann var að skrifa. Goðafræði og svona. Hann var ágætur strákur. Ég er bara frekar leið á þessari skáldadýrkun. Skúli var bæði skáld og framkvæmdaskáld,“ segir Þórunn Jarla.

Skúli endaði sína ævi háaldraður, kominn á níræðisaldur og lífsþreyttur eftir skrautlega ævi. Hann hafði látið af embætti fyrir aldurs sakir, þá áttatíu og tveggja ára gamall og fékk inni uppi á lofti í Viðeyjarstofu hjá Ólafi Stephensen og lést þar ári síðar, árið 1794. „Það urðu allir gjaldþrota í móðuharðindum og grimmdin var slík að sonur hans og tengdasonur dóu úr skömm vegna þess að þeir stóðu ekki í skilum. Það gat enginn staðið í skilum eftir móðuharðindin. Grimmdin í Danmörku var slík og það þarf að skoða þetta betur og skrifa tíu doktorsritgerðir í viðbót um það sem ég er að reyna að skilja í bókinni,“ segir Þórunn Jarla Valdimarsdóttir um hina forvitnileg bók um Skúla fógeta sem hún hefur ritað en bókin var á dögunum tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns efnis.