„Ég passa mig að gera aldrei of mikið því mig langar að það sé samspil milli myndlistarmannsins og áhorfandans,“ segir Aron Bergmann listamaður sem nýverið opnaði sýninguna Here Be Monsters í Gallerí Geysis á Skólavörðustíg. Þar vinnur hann olíumálverk á óvenjulegan hátt sem undir áhrifum frá gömlum landakortum og Latabæ.
Verkin vinnur Aron með því að fleyta olíumálningu í bala og prenta á pappír og við. „Þetta byrjaði í raun 2013 þegar ég var að vinna hjá Latabæ. Hún Stella sem vann þar kenndi mér að gera bókakápur fyrir Latabæjarbækurnar. Það var allt gert frá grunni og mér fannst svo magnað að sjá þessa aðferð. Þá ertu í raun og veru bara með vatnsbala, setur olíuliti út í hann og tekur síðan pappír og prentar á hann. Notar sem sagt olíulitina sem eru efst á vatninu til að prenta á pappírinn.“
Gaman að vinna með mistök
Ógerningur er að stýra nákvæmlega hvernig litirnir lenda og mótast. Sums staðar birtast óvænt form og furðuverur. „Ég leyfi því bara að koma á pappírinn sem kemur. Og svo fer bara eftir því hvernig ég sný blaðinu, hvort ég sjái eitthvað. Ég er með helling af blöðum sem ég sá ekki neitt í. Seinna meir langar mig að prófa að vinna eitthvað ofan í það. Á þessari sýningu eru verkin sem ég sá mest í og byrjaði að leika mér að. Ég er í raun og veru að vinna með mistökin sem urðu til, sem mér finnst ótrúlega gaman.“ Sumt skilur hann eftir óáreitt fyrir ímyndunarafl viðtakenda. „Þessu leyfði ég algjörlega að vera í friði svo áhorfandinn geti sjálfur leikið sér í hausnum, í hugmyndafluginu sínu meðan ég er að gera eitthvað allt annað hérna.“
Teikning er hugleiðsla
Aron lærði myndlist í Flórens og hefur fengist við fjölbreytt verkefni gegnum tíðina og meðal annars starfað sem leikmyndahönnuður, propsari, hugmyndasmiður, teiknari, brúðkaupsskipuleggjandi og sjómaður. Þar að auki var hann um tíma múrari og húsamálari. Hann segist sækja hugarró í listsköpunina. „Að teikna er fyrir mér dálítið mikið hugleiðsla og ég hef verið með svo mikið bullandi ADHD að þetta róar mig á kvöldin, að sitja og teikna.“
Sýningin Here Be Monsters stendur til 23. maí. Nánari upplýsingar má finna hér.