Mikið er að gera hjá sorphirðufólki yfir hátíðirnar enda fellur mikið til af rusli á þessum árstíma. Ragna Halldórsdóttir, deildarstjóri hjá Sorpu, segir að jólatrjám eigi að skila í endurvinnslustöð, þau verði nýtt til moltugerðar. Flugeldarusl megi ekki setja í tunnur sem ætlaðar eru fyrir pappír heldur eigi að skila því á næstu endurvinnslustöð.

„Það er best að það sé komið með þetta inn á endurvinnslustöðvarnar og að þetta fari í gám 66 fyrir blandaðan úrgang. Svona skottertur eru fullar af leirdrullu og það er mjög slæmt fyrir pappírinn að fá þetta í bland.“

Ragna segir að í Reykjavík hafi komið fyrir að fólk hafi bleytt í stórum skottertum og hent í tunnuna. „Þá verður þetta að svo mikilli drullu að þetta festist í tunnunum og þá eiga sorphirðuaðilarnir svo erfitt með að losa úr tunnunum þegar þeir koma að losa hjá okkur. Þeir vilja ekki fá þessar stóru skottertur í tunnuna. Smá flugeldaleifar og annað er í lagi en að fólk komi þessum skottertum á endurvinnslustöðvarnar.“