Það skortir tölfræði hér á landi um plastmengun í drykkjarvatni, að sögn Bergs Sigfússonar, fagstjóra umhverfis- og auðlindastrauma hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Í rannsókn Veitna kom í ljós margfalt minna af plastögnum í drykkjarvatni en í rannsókn sem Kveikur gerði.
Fjallað var um plastmengun í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld. Kveikur gerði sjálfstæða rannsókn á drykkjarvatni, í samstarfi við Matís. Í drykkjarvatni á heimili á höfuðborgarsvæðinu fundust að meðaltali 27 örplastsagnir í hverjum lítra. Bergur kveðst ekki þekkja við hvaða aðstæður sýnið hjá Kveik var tekið og því geti hann ekki tjáð sig um þann fjölda plastagna sem var mældur í því. „Það sem að við höfum séð hjá okkur í svona forrannsóknum er frá 0,1 og upp í 1 á lítra,“ segir hann.
Viðamikil rannsókn á drykkjarvatni stendur yfir á vegum Veitna, HS Orku og Norðurorku. Niðurstaðna er að vænta á fyrri hluta næsta árs. „Þar sem við erum að kanna í rauninni allar holur og hvað er í þeim og fá einhverja tölfræði á þetta. Það er tölfræði sem er ekki til á Íslandi.“
Tekin eru stór sýni og segir Bergur mikilvægt að gæta að því að mæla aðeins plastið í vatninu en ekki plast úr umhverfinu og því sé enginn í flíspeysu við mælingar. „Við erum í samfestingi, við rúllum okkur með hundahárarúllu til þess að fjarlægja allt. Við reynum að sjá til þess að það sé engin hreyfing á loftinu þegar við erum að taka sýni, við förum með sýnið og meðhöndlum inni í hanskaboxi sem er lokað og á yfirþrýstingi þannig að það er allt gert vegna þess að við sjáum að það er bara plast mjög algengt út um allt.“
Þess má geta að fréttamaður Kveiks fékk þau tilmæli frá Matís að gera engar sérstakar ráðstafanir, heldur láta vatnið renna úr krananum, eins og vanalega.
Hvaðan kemur plastið í drykkjarvatninu? „Við sjáum það alveg að það eru plast sem fýkur út um allt í umhverfinu. Það eru bara bæði ryk, það eru plastpokar og það getur verið eitthvað svoleiðis en við erum ekkert komin með það svar núna. Við erum bara með rannsókn í gangi og kannski náum við að svara því. Ég bara er ekki alveg klár á því hvað kemur út, við erum ekki til dæmis búin að sjá hvort það sé mikið af dekkjum eða peysum í vatninu, ekki enn þá.“